Þá er komið að föndrinu fyrir jólin.
Við föndrum ýmislegt fyrir jólin hérna og mér datt í hug að setja inn hugmynd af jólakerti.
Hérna hjá mér þá söfnum við hálfbrunnum kertum allt árið og notum það svo fyrir jólin en mér skilst að það fáist vax í föndurbúðum fyrir þá sem ekki eiga kertastubba til að bræða.
Fyrst er að finna mót við hæfi og hef ég notast við gamla mjólkurfernur eða fernur undan rjóma fer allt eftir í hvaða stærð kertið á að vera.
Svo þarf bómullargarn ég hef notað sláturgarn og hefur það virkað vel.
Svo smá vírstubb eða smá spítu til að halda garninu uppúr vaxinu.
Snúið garnið þannig að rétt þykkt á kveikjuþræði myndist ég er með garnið yfirleitt 4falt og passið að lengdin sé rétt setjið það uppá vírinn eða spítuna og látið þetta yfir mótið þannig að þráðurinn nái niður í botn. Einnig er ekki vitlaust að hafa pínulítinn vír neðst á þræðinum til að hann haldist við botninn.
Svo er að bræða vaxið í vatnsbaði ég nota gamlar niðursuðudósir og sortera vaxið eftir lit og set í dósirnar og set svo dósirnar í pott með vatni í og læt það malla þar til vaxið er bráðnað. Svo hellir maður vaxinu í mótin og ef maður vill hafa kertið marglitt þá er að leyfa hverjum lit fyrir sig að kólna á milli. Svo þegar kertið er orðið kalt þá tekur maður það úr mótinu og annað hvort dýfir því í bráðið vax til að fá slétta áferð eða setur álpappír utanum og setur það augnablik í heitan ofninn bara rétt til að slétta áferðina. Svo er hægt að mála jólamyndir eða setja glansmyndir á kertin til að gera þau fallegri. Ég hef ekki prófað að mála á kertin hérna en ég hef sett glansmyndir á og fest þær með bráðnu vaxi. Þetta finnst mér fallegustu kertin um jólin sérstaklega þau sem börnin gera. Svo er hægt að leyfa börnonum að gera kerti til að gefa ömmum og öfum í jólagjöf.
Gangi ykkur vel í kertagerð :)