403ja landsleikja maðurinn Guðmundur Hrafnkelsson er einn landsleikjahæsti handknattleiksmaður í heiminum, en aðeins Frakkinn Jackson Richardson hefur leikið fleiri landsleiki en hann. Við byrjuðum á því að spyrja hann hvers vegna hann héldi að ferill hans væri jafn langur og raun ber vitni. “Ég hef verið heppinn með meiðsl og ég hef yfirleitt verið nokkuð fit, þetta hefur gengið vel þannig lagað séð.” Það er líklega ekki til betri leið til þess að klára ferilinn en með sigri gegn Svíum og var Guðmundur sammála því. “Það er ekki slæmt, ég held að ég hafi einu sinni áður verið með í sigurleik gegn þeim, 1987.” Þá notaði hann tækifærið og hrósaði landsliðsstrákunum fyrir góðan leik og Birki Ívari fyrir góða markvörslu fyrir aftan sterka vörnina. Við spurðum hann að lokum að því hvort það væri eitthvað pláss fyrir Ólaf Stefánsson í liðinu eftir frábæra frammistöðu Einars Hólmgeirssonar, kíminn á svip svaraði hann: “Jájá ég hugsa að það sé alveg pláss fyrir hann.”