Það var ekki hátt risið á aðdáendum íslenska handboltaliðsins í gær eftir hörmulega frammistöðu gegn úkraínska liðinu. En það voru ekki strákarnir okkar sem töpuðu leiknum, heldur þeir, enginn vildi kannast við að eiga neitt í þessum aulabárðum. Fremstur í flokki var þó án nokkurs vafa Adolf Ingi Erlingsson, sem einhvern tíman var nú formaður Samtaka Íþróttafréttamanna, og er jafnvel enn. Það embætti hefur þó aldrei stoppað Adolf í að tala tæpitunglaust en maður hefði einmitt haldið að maður í slíkri stöðu ætti að vera öðrum íþróttafréttamönnum fyrirmynd.

Það er ekkert leyndarmál að Íslendingar áttu hörmulegan dag í gær (skitu í brækurnar eins og Valdi Gríms orðaði það svo pent.) En fyrr má nú rota en dauðrota. Fúkyrðaflaumurinn var slíkur úr munni Adolfs að ég hef sjaldan heyrt annað eins. Ekki nóg með að hann rakkaði alla leikmenn liðsins niður (nafngreindi marga og sagði þá aldrei hafa spilað eins illa) heldur sló hann því nánast föstu að íslenska liðið væri úr leik og ekki á leið í milliriðil. Það væri enginn möguleiki að þetta lið myndi nokkurn tíman vinna Frakka og við værum að fara að spila um neðstu sætin á mótinu. Uppbyggileg gagnrýni hvað?

Mér þótti það ansi neyðarlegt að heyra slíkan reiðilestur yfir íslenska handboltalandsliðinu, aðeins nokkrum dögum eftir að sannir stuðningsmenn tóku sig til og stofnuðu Strákarnir okkar í blíðu og stríðu

Annars held ég að það sé full ástæða til að hrósa íslensku leikmönnunum fyrir frábæran leik í kvöld. Ekki nóg með að þeir færu með sigur af hólmi, heldur rústuðu þeir Evrópumeisturum Frakka gjörsamlega. Frakkarnir sáu aldrei til sólar og voru hreinlega kjöldregnir. Ég hafði allan tíman trú á íslenska liðinu, nú er bara að vona að þeir haldi sér á jörðinni. Ef þeir halda áfram að spila svona gætu þeir komist ansi langt á þessu móti.

Adolf er án vafa stoltur af sínum mönnum. Verst að hann gaf ekki út nein loforð um að éta hattinn sinn. Ég hefði glaður farið og keypt hatt handa honum.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _