Halda Eyjamenn lífi?

Haukar geta varið Íslandsmeistaratitil sinn þegar þeir taka á móti ÍBV í þriðja leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í DHL deildinni í handbolta annað kvöld klukkan 19:40 á Ásvöllum. Fyrstu tveir leikir liðanna hafa verið einkar spennandi og boðið hefur verið upp á frábæran handbolta. Haukar sigruðu fyrsta leikinn í Hafnarfirði 31-30 og framlengingu þurfti til að útkljá leik númer tvö sem Haukar sigruðu einnig. Blaðamaður Sport.is ræddi við Heimi Ríkharðsson unglingalandsliðsþjálfara og fyrrum þjálfara Fram um möguleika ÍBV á að halda lífi í einvíginu.


Jafnt og skemmtilegt einvígi
Í báðum leikjum liðanna um Íslandsmeistaratitilinn til þessa hefur ÍBV byrjað betur og náð ágætu forskoti. Haukar hafa sýnt af hverju þeir eru meistarar og komið til baka í báðum leikjunum en Eyjamenn voru klaufar að tapa öðrum leiknum í Eyjum. “Einvígi liðanna til þessa hefur verið skemmtilegt. Leikirnir hafa verið jafnir og þetta hefur verið hörku handbolti sem liðin hafa boðið uppá. Ég get samt ekki neitað því að ég bjóst við sigri ÍBV í Eyjum og þeir hljóta að naga sig í handabökin eftir að hafa hent leiknum frá sér!” Eins og Heimir segir hafa liðin leikið prýðilegan handbolta og þetta einvígi hefur verið góð auglýsing fyrir handboltann sem þarf svo sannarlega á því að halda.



Ólík lið
Haukar hafa sigrað leikina tvo fyrst og fremst vegna þess að þeir eru með meiri breidd þegar það kemur að sóknarleiknum og Eyjamenn treysta of mikið á frábæra skyttu sína Tite Kalandadze. “Liðin eru ákaflega ólík. Haukar treysta mjög á hraðann og hraðaupphlaup á meðan ÍBV eiga í erfiðleikum í sókninni. Til að sigra þurfa Eyjamenn að eiga mjög góðan leik og enda sóknirnar betur og með því koma í veg fyrir hraðaupphlaup Haukanna. Svo skiptir miklu að stoppa Ásgeir sem var frábær í öðrum leik liðanna.” Línumaður ÍBV Svavar Vignisson hefur átt frábært einvígi en Eyjamenn þurfa að fá meira út úr lykilmönnum eins og Roberti Bognar, Sigurði Ara og Samúel Ívari til að sigra Hauka á morgun. Eyjamenn þurfa einnig að láta Hauka hafa meira fyrir sóknarleiknum en Haukar hafa endað of margar sóknir í dauðafærum í leikjunum tveimur.



Heimir vonast eftir sigri ÍBV á morgun en hann eins og flestir handboltaunnendur vilja fá fleiri leiki í einvígið. “Ég hallast engu að síður að sigri Hauka en mér finnst ÍBV liðið samt það gott að þeir eiga að vinna að minnsta kosti einn leik.” Haukar hafa ekki tapað leik í úrslitakeppninni og væri það einstakur árangur ef þeir færu í gegnum úrslitakeppnina ósigraðir eins og kvennalið félagsins. “Það eru góðir menn í öllum stöðum hjá Haukum og þeir eiga góð leikmenn á bekknum sem geta komið inná eins og t.d. Freyr sem átti mjög góða innkomu varnarlega í öðrum leiknum og Gunnar Ingi sonur Jóhanns Inga sem stóð sig mjög vel í sama leik. Einnig hefur liðið sýnt gríðarlegan karakter í einvíginu og eiga Eyjamenn mjög erfitt verk fyrir höndum.”