Þá eru strákarnir okkar dottnir út. Kemur ekki á óvart miðað við andann í liðinu. Liðið átti reyndar mjög góða spretti á köflum á móti Rússum í gær en eins og allir vita tapaði Ísland (34-30 minnir mig). Tapið fylgdi í kjölfarið á tapi gegn S-Kóreu en leikinn þar á undan unnum við, þann eina hingað til. Einn sigur og 4 töp og við leikum um 9. sætið við Brasilíumenn.

Vandamálið í þessari keppni hefur verið að liðið hefur verið alltof óstöðugt. Trekk í trekk lenda strákarnir í að tapa leikjum á 5 mínútum í fyrri hálfleik. Nýting dauðafæra hefur verið léleg, markvarslan sömuleiðis og andstæðingarnir virðast geta skorað að vild. Lykilmenn á borð við Guðjón Val og Sigfús hafa bara náð sér á strik á köflum.

Eins vantar okkar menn hæð á við andstæðingana. Ásgeir Örn, Snorri Steinn og Dagur Sigurðsson eru ekki mjög stórir á handboltamælikvarða. Það eru ekki heldur þeir sem skora mest í íslensku deildinni. Markús Máni, Einar Hólmg. og Arnór Atlason eru engir risar. Ef allir hávöxnu strákarnir á íslandi færu ekki í körfuna gætum við vel alið góðar risavaxnar skyttur. Öll þessi hæð skilar okkur engu í körfunni. Við erum léleg körfuboltaþjóð. Við þurfum auk þess að koma handboltanum á landsbyggðina. Þá fengjum við fleiri góða handboltamenn, meiri breidd, e-ð sem okkur sárlega skortir.

En aftur að ÓL í Aþenu. Brasilíumenn eru ekki ýkja hátt skrifaðir í handboltanum en okkar menn verða sjálfsagt í vandræðum með þá. En ef Íslendingar hysja upp um sig brækurnar og spila almennilegan leik geta þeir vel valtað yfir Brassana. Með samstilltu átaki getur liðið náð langt. Það sannaðist í Svíþjóð 2002.

Vonandi náum við lengra á næsta HM þó Óli Stef verði ekki með. Patti kemur inn og vonandi menn eins og Arnór Atla, Einar Hólmg., Logi Geirsson, Vilhjálmur Halldórsson og Björgvin Páll. Svo er nú ekki langt í Alexandrs Pettersons.

Ef Guðmundur stokkar ekki upp í liðinu fyrir næsta mót komum við ekki til með að ná miklum árangri. Það er alveg ljóst.