KA tryggði sér í dag sæti í úrslitaleikinn gegn annað hvort Haukum eða Val. KA-menn sigruðu Aftureldingu, 29:28, en bráðabana þurfti, auk tveggja framlenginga, til að knýja fram úrslit.
Staðan eftir venjulegan leiktíma var 20:20, en KA-menn voru yfir í hálfleik, 13:8. KA var einnig yfir mestallan síðari hálfleik, en Páll Þórólfsson jafnaði fyrir Aftureldingu úr vítakasti að loknum venjulegum leiktíma. Í fyrri framlengingunni voru Mosfellingar sterkari aðilinn, en Guðjón Valur Sigurðsson, hetja KA-manna, jafnaði leikinn beint úr aukakasti í stöng og inn og knúði þar með fram aðra framlengingu. Að henni lokinni var staðan 28:28 og þurfti því bráðabana. Þar skoraði Guðjón Valur sigurmarkið úr vítakasti og var honum fagnað ærlega að því loknu.