Jónatan er 23 ára, fæddur þann 1. júní 1980 en Andrius sem er frá Litháen er fæddur 3. mars 1974 og því nýorðinn þrítugur. Jónatan er fyrirliði liðsins, spilar sem leikstjórnandi og hefur leikið 191 leik með meistaraflokki KA. Andrius er hins vegar línumaður og hefur leikið 127 leiki fyrir félagið. Báðir voru þeir sammála um að helsti styrkleiki K.A. liðsins væri mórallinn en Jónatan nefndi einnig sterkan sóknarleik liðsins. Þegar spurt var um veikleika taldi Jónatan að á þessari stundu væri það markvarsla og varnarleikur. Andrius nefndi hins vegar óstöðugleika í leik liðsins.
Þar sem Jónatan er fyrirliði liðsins langaði mig að vita í hverju það hlutverk væri fólgið. Hann svaraði þessari spurningu þannig að hans hlutverk væri fyrst og fremst að vera hvetjandi og koma með góða strauma í liðið. Hann þyrfti einnig að vera öðrum leikmönnum góð fyrirmynd, jafnt innan vallar sem utan. Jónatan þurfti einnig að svara því hvað væri það skemmtilegasta við handboltann. Hann sagði það vera félagsskapinn, ögrunina að bæta sig og ná árangri. Hann segir jafnframt að til að ná árangri verði menn að hafa mikinn metnað og sjálfsaga. Jónatan er ánægður með árangur félagsins í handbolta en stefnan væri að sjálfsögðu alltaf sett á að bæta hann. Jónatan stefnir í framtíðinni á atvinnumennsku erlendis.
Þar sem Andrius er frá Litháen og hefur spilað110 landsleiki fyrir heimaland sitt langaði mig að vita hver væri munurinn á handbolta í Litháen og á Íslandi. Hann svaraði að á Íslandi væru mun sterkari lið en í Litháen. Hér á landi væru 7-8 mjög góð lið en í Litháen væru þau aðeins 2. Hann segist mjög ánægður hjá K.A. því liðið er alltaf í toppbaráttunni. Andrius yfirgefur herbúðir K.A. manna í sumar því hann hefur gert 2ja ára samning við þýska liðið Göppingen. Hann segist þó ætla að koma aftur til Íslands og spila handbolta en stefnir að því í framtíðinni að verða handboltaþjálfari.
Að lokum spurði ég þá félaga hvernig þeir teldu að íslenska landsliðinu myndi ganga á Ólympíuleikunum í Aþenu sem haldnir verða í ágúst nk. Þeir voru ekki sammála um þetta því Andrius telur að liðið verði í 6. sæti en Jónatan spáir þeim því miður ekki góðu gengi en vildi ekki nefna ákveðið sæti. Svo mörg voru þau orð og strákarnir farnir inn í sal á æfingu hjá ættarstoltinu.