Saga handknattleiks hjá K.A.


K.A, Knattspyrnufélag Akureyrar, var stofnað þann 8. janúar 1928. Eins og nafn félagsins gefur til kynna þá var það upphaflega stofnað sem knattspyrnufélag en engu að síður fór fyrsti opinberi leikur K.A. í handknattleik karla fram á Akureyri þann 17. júní 1928. Segja má að íþróttin hafi átt mjög erfitt uppdráttar innan félagsins framan af og voru það helst leikfimikonur úr K.A. sem héldu merki félagsins á lofti í handknattleik. Á þessum tíma voru fáir sem litu á handknattleik sem alvöru íþrótt. Í febrúar 1934 skoraði stjórn K.A á Íþróttasamband Íslands að reka smiðshöggið á “knattvarpsreglur” þær sem sambandið hafði þá haft til meðferðar í einhvern tíma og þá voru fyrstu leikreglurnar gefnar út. Á Akureyri skorti hins vegar húsnæði til æfinga og var handknattleikur því aðallega stundaður á sumrin sem útiíþrótt. Æft var á grasvelli þar sem Íþróttahöllin stendur núna.
Í lok ársins 1964 má segja að sá handknattleikur sem við þekkjum í dag hafi átt upphaf sitt en þá bauð Rafveita Akureyrar Handknattleiksráði Akureyrar áhaldahús sitt undir æfingar og keppni í handbolta. Áhuginn jókst gríðarlega við þessa nýju aðstöðu sem þætti ekki merkileg í dag því leikið var á steingólfi í óupphituðu húsi en þar var engin baðaðstaða. Strax í janúar 1965 var ákveðið að senda fyrsta karlaliðið frá Akureyri til keppni á Íslandsmóti og var þá keppt undir merkjum Í.B.A. Stærsta skrefið í sögu handbolta á Akureyri var hins vegar án efa stigið 28. janúar 1967 þegar Íþróttaskemman við Tryggvabraut var formlega tekin í notkun því þá áttu Akureyringar í fyrsta sinn löglegan handknattleiksvöll. Í Íþróttaskemmunni var trégólf og aðstaðan öll mun betri.
Lið Í.B.A. lék á Íslandsmóti 2. deildar allt til ársins 1968 en þá ákváðu K.A. menn að slíta sambandinu við Þór og standa á eigin fótum. Lengi framan af átti K.A. í hinu mesta basli við að koma sér upp í 1. deild en keppnistímabilið 1980-81 tókst liðinu loks að ná hinu langþráða markmiði sínu eftir sigur í 2. deild. Ekki var þó veran í 1. deildinni löng því liðið féll strax niður aftur og flakkaði á milli deildanna þar til haustið 1985 að K.A. hóf keppni í 1. deild og hefur ekki litið til baka eftir það. Liðið hefur spilað óslitið í efstu deild síðan og verið í stöðugri framför. Með tilkomu K.A.-hússins haustið 1991 var tekið stórt stökk í handknattleik innan félagsins og árangurinn lét ekki á sér standa hvort heldur litið er til meistaraflokksins eða yngri flokka félagsins.
Alfreð Gíslason, sem á árum áður hafði leikið með K.A. en síðan farið í atvinnumennsku og getið sér orð sem einn besti handboltamaður heims snéri aftur heim og tók við þjálfun K.A. liðsins haustið 1991 sama ár og K.A.-húsið var tekið í notkun. Það var virkileg hátíðastemming allan þann vetur og henni hefur ekki lokið enn þann dag í dag. Margir hafa lagt hönd á plóginn, bæði leikmenn og þjálfarar. Þó eru nokkur nöfn sem standa nokkuð uppúr. Birgir Björnsson þjálfaði K.A.-liðið veturinn sem K.A. komst fyrst í 1. deild og margir halda því fram að þessi fyrrum landsliðsþjálfari hafi markað hvað dýpst spor í handboltanum á Akureyri og gefið mönnum það spark sem þeir þurftu til að rífa sig upp úr meðalmennskunni. Alfreð Gíslason fyrrverandi þjálfari náði einnig að lyfta félaginu mjög og átti sinn þátt í að skapa því þá virðingu sem það hefur í dag. Atli Hilmarsson sem tók við þjálfun liðsins þegar Alfreð hætti reyndist einnig happafengur fyrir félagið. Þá verður seint ofmetið gildi K.A. hússins sem almennt er talið einn besti heimavöllur landsins og áhorfendur á leikjum eru almennt viðurkenndir sem þeir bestu og eiga stóran þátt í að hver sigurinn af öðrum hefur unnist síðustu árin. Núverandi þjálfari K.A. er Jóhannes Gunnar Bjarnason en hann tók við liðinu haustið 2002 eftir afar farsælan feril sem þjálfari yngri flokka félagsins.



Tímabilið 2003-2004


Síðastliðið haust var keppnisfyrirkomulagi Íslandsmótsins í handknattleik breytt. Liðunum var í upphafi móts skipt í tvo riðla, norður- og suðurriðil, sem léku innbyrðis. Sjö lið voru í norðurriðli en átta í suðurriðli. K.A menn voru að sjálfsögðu í norðurriðli ásamt Þór, Fram, Val, Víking, Aftureldingu og Gróttu K.R. Fjögur efstu liðin úr hvorum riðli fóru síðan í úrvalsdeild og tóku með sér stigin úr innbyrðis viðureignum. Í úrvalsdeild spila síðan allir við alla heima og heiman. Íslandsmótið endar síðan með úrslitakeppni sem leikin er með útsláttarfyrirkomulagi. Sex efstu liðin úr úrvaldsdeild komast beint í úrslitakeppnina en lið nr.7 þarf að leika við lið nr. 2 úr fyrstu deild um réttinn til að halda áfram en neðsta lið úrvaldsdeildar kemst ekki áfram en það gerir hins vegar efsta lið fyrstu deildar.
K.A. menn byrjuðu veturinn fremur illa og eftir þrjá leiki hafði liðið aðeins tvö stig og höfðu m.a. tapað tveimur leikjum á heimavelli. Undirbúningur hafði ekki gengið vel vegna meiðsla og einnig voru lykilmenn liðsins staddir erlendis í útskriftarferðalagi Menntaskólans. KA menn girtu sig þó fljótlega í brók og töpuðu ekki leik í næstu sex umferðum ásamt því að vinna þrjá bikarleiki. Þegar upp var staðið endaði liðið í öðru sæti Norður-riðils á eftir Val og tók með sér sjö stig í úrvalsdeildina. Verður það að teljast ágætis niðurstaða eftir erfiða byrjun. Liðið komst í úrslit bikarkeppninnar og varð eins og flestir vita bikarmeistari eftir frábæran leik gegn Fram. Sigur K.A. var sannfærandi 31-23 og skemmtilegt fyrir K.A. fólk að lesa íþróttasíður dagblaðanna eftir leikinn. Í Morgunblaðinu segir m.a. í fyrirsögn á íþróttasíðu 1. mars sl. “KA-menn voru sterkari á öllum sviðum”. Í DV var einnig mikið skrifað um leikinn og þar stendur m.a.: “Bikarúrslitaleikur karla var orðinn einstefna skömmu fyrir leikhlé. KA-menn settu nýtt markamet (31 mark) og léku sér að Fram í seinni hálfleik……” . Þjálfari liðsins, Jóhannes G. Bjarnason, var að sjálfsögðu afar stoltur af liði sínu í leikslok en með þessum titli hefur hann náð að vinna titla í öllum flokkum í handknattleik karla. Geri aðrir betur.
Þegar þetta er skrifað er keppnin í úrvalsdeild á fullu og að eins einni umferð ólokið. Liðið er sem stendur í fjórða sæti og á því miður ekki lengur möguleika á deildarmeistaratitli en getur náð öðru sæti ef vel gengur í síðustu umferðinni sem fram fer sunnudaginn 4. apríl nk. Liðið ætlar sér stóra hluti í úrslitakeppninni og mun að sjálfsögðu gera harða atlögu að Íslandsmeistaratitlinum.