Sælir hugarar!
Nú er úrslitakeppnin í kvennaboltanum komin af stað og 8-liða úrslitin að baki. Til þess að komast áfram þurftu liðin að vinna tvo leiki.

ÍBV mætti Ka/Þór og unnu ÍBV-stúlkur tvo örugga sigra. Leikirnir fóru 32-23 og 39-29.
Stjarnan mætti Gróttu/Kr og unnu Stjörnustúlkur 2:0. Fyrri leikur liðanna var heldur óspennandi þar sem Stjarnan leiddi leikinn og bar sigur af hólmi 23-18. Í seinni leiknum var spennan mun meiri og tókst Stjörnustúlkum að vinna leikinn 22-21. Grótta/Kr stóð í Stjörnunni og munaði ekki miklu að framlengja þyrfti leikinn.
Hafnafjarðarliðin FH og Haukar tókust á en þar sem Haukastúlkur spiluðu með heldur vængbrotið lið tókst FH-ingum að sigra örugglega í fyrri leiknum 28-19. FH-stúlkur báru einnig sigur í bítum úr seinni leiknum en þó með minni mun en í þeim fyrra, 26-22.
Að lokum mættust Valur og Víkingur. Valur sigraði nokkuð örugglega í fyrstu viðureign liðanna 29-22. Víkingsstúlkur voru þó ekki búnar að syngja sitt síðasta og unnu þær Valsstúlkur eftir framlengdan háspennuleik 23-22. Liðin voru því bæði komin með einn sigur og var þriðji leikur liðanna hreinn úrslitaleikur um sæti í undanúrsltunum. Valsstúlkur komu ákveðnari til leiks í þeim leik og unnu með 2 mörkum.

Það er því ljóst að ÍBV og Stjarnan leika í undanúrslitum og FH mætir Valssúlkum. Nokkur tími er enn í leikina og hafa liðin því nægan tíma til þess að kortleggja andstæðingana fyrir viðureignirnar.

Ég hvet fólk eindregið til þess að fylgjast með það sem eftir er af kvennahandboltanum í vetur! Þessir leikir verða bæði spennandi og skemmtilegir!

Handboltakveðjur,
Disaben
Passaðu þrýstinginn maður!!