Lynyrd Skynyrd - (pronounced 'lĕh-'nérd 'skin-'nérd) Fyrsta plata sveitalubbanna í Lynyrd Skynyrd „(pronounced leh-nérd ‘skin-’nérd)“ er einhver albesta fyrsta plata frá rokkhljómsveit sem ég hef nokkurn tímann heyrt. Þarna eru lög á borð við Simple Man, Tuesday's Gone og Free Bird og önnur minna þekkt eins og Gimme Three Steps og I Ain‘t The One. Hljómsveitin var uppgötvuð af upptökustjóranum og tónlistarmanninum Al Kooper (Blood, Sweat and Tears, Bob Dylan og.fl) árið 1972 á klúbbi í Atlanta. Þeir fengu samning hjá MCA Records og gáfu svo út (pronounced ‘leh-’nérd ‘skin-’nérd) árið 1973. Bandið skartaði þremur gítarleikurum á plötunni, það voru þeir Gary Rossington, Allen Collins og Ed King. Fyrir vikið skapast virkilega “djúsí” gítarsánd og sem dæmi má nefna hið margfræga gítarsóló í Free Bird sem flestum ætti að vera kunnugt. Hljómsveitin var undir miklum áhrifum frá hljómsveitinni The Allman Brothers Band sem voru þekktir fyrir langa spuna parta í tónlist sinn. Bandið var þó ekki bara undir áhrifum annarar suðurríkjatónlistar heldur voru þar líka hljómsveitir á borð við Stones, Free, Jeff Beck og félaga, The Beatles og fleiri sem höfðu mikil áhrif á félagana. Það er þó hægt að heyra að hljómsveitin var að reyna að skapa sinn eiginn hljóm og rífa sig svolítið frá upprunanum en héldu þó alltaf tryggð við upprunann með lögum eins og Thing‘s Going On og Mississippi Kid. Þessu blandaði hljómsveitin svo saman í einn graut og því varð sem varð. Óþarfi að eyða eitthvað mörgum orðum í Free Bird, það þekkja það allir, eitt mesta rokk lag sögunnar, Tuesday‘s Gone og Simple Man eru allt lög sem hafa svipaðan keim. Þarna eru svo þrjú lög sem byggjast á einföldum en grípandi gítarriffum, það eru lögin Gimme Three Steps sem er hálfgert búgí rokk sem flestir ættu að komast í stuð við að hlusta á, I Ain‘t The One og sísta lag plötunnar Poison Whiskey sem er þó hvorki leiðinlegt né lélegt lag heldur býr platan bara yfir svo sterkum lögum og því á hún skilið 5/5.