The Beatles - Rubber Soul (1965) Árið 1965 kom út platan Rubber Soul með Bítlunum. Eftir Help! soundtrackið var búist við miklu og kom þá út meistarastykkið Rubber Soul, sem er persónulega mín uppáhalds Bítlaplata. Lagið byrjar á Drive My Car, sem fjallar um unga stelpu sem ætlar sér að verða fræg og einkabílstjóra hennar. Lagið er létt og frekar þægilegt til hlustunar, gott lag til að byrja plötu.

Norwegian Wood er næsta lag plötunnar, það má til gamans geta að þetta er fyrsta lagið sem George notar sitar í og einnig eru engar trommur í því, bara tambúrína. Það minnir mig samt ekki á indverska tónlist, minnir mig meira á norska tónlist. You Won’t See Me er næsta lag. Lagið er að mestu leyti eftir Paul en það heyrast smá John áhrif þarna. Nowhere Man er frábært lag, og líka næsta lag á plötunni. Fyrsta bítlalagið sem var með sækadelíu áhrifum, ég hreinlega elska þetta lag. Syng alltaf með því og er með það á replay tímunum saman. Lagið var einnig í Yellow Submarine myndinni, og laginu fylgdi frábær persóna sem ég hreinlega elska. Er að mínu mati langbesta lagið á plötunni og örugglega besta bítlalagið, með smá undantekningum.

Think For Yourself er fyrsta Harrison lagið á plötunni, af tveimur. Lagið er alveg magnað, gæsahúðin sem maður fær á köflum er algjört yndi. Textinn er frekar einhæfur að vísu en melódían… vá… The Word er létt lag og takturinn í því til sóma. Ringo er að mínu mati einn sérstakasti trommari allra tíma taktlega séð, þetta lag er gott dæmi um það. Michelle er týpískt Paul lag, gítarlínan í því er frekar grísk og bakraddirnar frekar draugalegar. Lagið er frekar rólegt ástarlag, með frekar flottum texta. Einnig er frekar gaman að syngja með því, sérstaklega þegar franskan kemur, þá getur maður bullað.

What Goes On? er slakasta lag plötunnar, Ringo Starr syngur það en það er eftir þá Lennon/McCartney. Girl er annað lagið sem George notar sitar í, flott lag sem John syngur af þvílíkri tilfinningu og einlægni. Maður fer að vorkenna honum á köflum. I’m Looking Through You er næsta lag, Ringo spilar á orgel ásamt trommunum og George á tambúrínu ásamt gítarnum. In My Life er næsta lag, sem er án efa eitt fallegasta lag sem ég hef heyrt. Lagið er eftir John Lennon og hann syngur það ásamt því, þarna heyrist að John hefur frekar fjölhæfa rödd (heyrist líka í Girl). George Martin spilar á Píanó í því, sem er nokkuð magnað.

Wait er sniðugt lag, tekið upp 17. júní 1965 og John Lennon spilar á tambúrínu í því. If I Needed Someone er annað lag eftir George Harrison á plötunni, John Lennon fær það magnaða hlutverk að spila á tambúrínu í því, ásamt því að raula með í bakgrunn. Besta lagið eftir George Harrison á plötunni, enda ekki mikið úrval af þeim (því miður). Run For Your Live er flott lag (dahh…). Byrjunin minnir mig dáldið á “Dr. Robert” sem kemur ári eftir þetta lag, á Revolver. George Martin fær þann heiður að spila með þeim á tambúrínu í þessu lagi, sem er bara magnað sko. Acoustic gítarinn kemur bara nokkuð vel út í þessu lagi, og það er hann John sem glamrar á hann.

Platan er að mínu mati langbesta Bítlaplatan, þar á eftir kemur Magical Mystery Tour. Platan fær ekki lægri einkunn en 10, enda ekkert útá hana að setja.