Please Please Me Jæja, nú er loksins komið að því, ég ætla að skrifa fyrstu umsögnina um Bítlaplötu eins og ég sagðist ætla að gera ;) Ég vil minna fólk á að ef fólk vill skrifa plötudóma hérna á áhugamálinu þarf það ekkert annað að gera en að hafa samband við mig (og svo að sjálfsögðu að skrifa :) ) og ég mun gera þeim það kleyft. En nú að umsögninni, og að sjálfsögðu byrja ég á fyrstu plötunni, Please Please Me…

Vá, hvar skal byrja? Þetta er platan sem kom öllu af stað, fyrsta plata hljómsveitar sem átti eftir að breyta heiminum. Platan var öflugt byrjendaverk, innihélt þónokkra smelli og er enn þann dag í dag í spilun. Á þessari plötu voru Bítlarnir upp á sitt besta í hinu fjöruga rokki ólíkt því sem síðar átti eftir að vera, og Mersey-takturinn svokallaði í algleymingi. Platan inniheldur þessi lög:

1. I Saw Her Standing There (Lennon/McCartney) - 2:55
2. Misery (Lennon/McCartney) - 1:50
3. Anna (Go to Him) (Alexander) - 2:57
4. Chains (Goffin/King) - 2:26
5. Boys (Dixon/Farrell) - 2:27
6. Ask Me Why (Lennon/McCartney) - 2:27
7. Please Please Me (Lennon/McCartney) - 2:03
8. Love Me Do (Lennon/McCartney) - 2:22
9. P.S. I Love You (Lennon/McCartney) - 2:05
10. Baby It's You (Bacharach/David/Williams) - 2:38
11. Do You Want to Know a Secret (Lennon/McCartney) - 1:59
12. A Taste of Honey (Marlow/Scott) - 2:05
13. There's a Place (Lennon/McCartney) - 1:52
14. Twist and Shout (Medley/Russell) - 2:33

1. I Saw Her Standing There: Hvílík byrjun! Paul McCartney telur inn í byrjun, og eftir það er ljóst að ekki verður aftur snúið. Krafturinn í söngnum og hljóðfæraleiknum var þvílíkur, og ekki að ástæðulausu að þetta var sett sem upphafslagið á plötunni.

2. Misery: Þessi plata var fyrsta Bítlaplatan sem ég eignaðist (reyndar hafði ég átt safndiska áður). Þegar ég hlustaði á þetta, sem var þ.a.l. fyrsta Bítlalagið sem ég heyrði sem var ekki eitt af þessum “stóru” og hafði aldrei komið út á smáskífu, man ég að ég uppljómaðist, og gerði mér e.t.v. í fyrsta skipti að þessi hljómsveit væri einstök. Ég minnist þessa lag helst fyrir þetta, en einnig fyrir ansi skemmtilegan tónstiga í viðlaginu.

3. - 5. Ég ætla mér ekki mikið að tala um þau lög sem ekki voru samin af Bítlunum sjálfum (að sjálfsögðu fyrir utan síðasta lagið á plötunni) en af þessum lögum finnst mér lag nr. þrjú vera best, þó svo að sjálfsögðu komist það ekki í hálfkvist við lögin sem samin voru af þeim sjálfum.

6. Ask Me Why: Rólegt og fallegt lag, falleg ballaða þó svo að þetta lag jafnist ekki á við þær ballöður og rólegu lög sem þeir áttu seinna eftir að gera.

7. Please Please Me: Titillag plötunnar, og með betri lögum hennar. Þetta lag var fyrsta lag The Beatles sem komst á topp breska vinsældalistans. Þetta lag greip mig við fyrstu hlustun enda ekki að ástæðulausu sem lagið komst á toppinn.

8. Love Me Do: með einfölduru lögum sem tvíeykið magnaða samdi, en smáskífan komst samt sem áður í efsta sæti bandaríska listans.

9. P.S. I Love You: eitt af mínum uppáhaldslögum frá fyrri hluta starfstíma Bítlanna, en þetta lag var á b-hlið Love Me Do (en samt sem áður finnst mér þetta lag betra :) )

10. Baby It's You: sjá skýringu á 3.-5.

11. Do You Want to Know a Secret: líklegast flóknasta lagasmíð plötunnar, sem sýndi e.t.v. best hvílíkum hæfileikum þeir bjuggu yfir. George Harrison fékk að syngja lagið þó svo að Lennon hafi verið aðalhöfundurinn, en Lennon sagði síðar að hann hafi fengið innblástur fyrir textann frá kvikmyndinni Mjallhvít og Dvergarnir sjö.

12. A Taste of Honey: Tvímælalaust að mínu mati slakasta lag plötunnar, og það lag sem ég hef oftast spólað á öllum mínum Bítlahlustunartíma.

13. There's a Place: Að mörgu mati fer lýsing mín á þessu lagi saman við lýsinguna á Misery þannig að lesið hana bara aftur :)

14. Twist and Shout: VÁ! Hvílíkt lag og hvílíkur flutningur. Þegar kom að því að taka þetta lag upp voru Bítlarnir búnir að vera í hljóðverinu svo klukkutímum skipti. Ákveðið var að klára plötuna, og því skyldi taka lagið upp í einni töku. Lagið sýnir allra laga best hvílíkum krafti þessir drengir bjuggu yfir, og þegar komið er yfir miðju lagsins er Lennon farinn að missa röddina svo um munar. Hann verður rámari og rámari eftir hvert öskrið á fætur öðru og í endann á laginu geri ég mér í hugarlund að hann hefði ekki getað komið upp einu einasta hljóði upp í viðbót. Þessi söngur er tvímælalaust með þeim allra skemmtilegustu sem hljómsveitin tók upp á öllum sínum ferli.

Þessi plata er (eins og allar Bítlaplötur) frábær og mjög skemmtileg í hlustun, sérstaklega ef maður er að leita að fjörugu rokki sem ekki reynir jafnmikið á eins og seinni verk þeirra. Ég hvet því alla til að kaupa sér þessa plötu, og e.t.v. munuð þið sem ekki hafið hlustað neitt mikið á The Beatles, verða uppnumin eins og ég.

geiri2