Tekið af mbl.is

Ein allra merkasta rokkplata sögunnar á 40 ára afmæli. Um er að ræða aðra breiðskífu bresku rokksveitarinnar Led Zeppelin, sem heitir einfaldlega Led Zeppelin II. Hún var gefin út 22. október árið 1969, aðeins níu mánuðum eftir að glæsilegur frumburður sveitarinnar leit dagsins ljós.

Bandaríska tónlistartímaritið Rolling Stone fjallar um plötuna á þessum tímamótum. Fram kemur að Jimmy Page, gítarleikari og aðallagahöfundur sveitarinnar, hafi séð um upptökustjórn, en platan er af mörgum talin einn af máttarstólpum þungarokksins. Þar er að finna slagara á borð við „Whole Lotta Love“ sem sáu til þess að Led Zeppelin yrði um aldur og ævi ein af háværustu og bestu rokkhljómsveitum sögunnar.

Robert Plant sýndi það jafnframt og sannaði að hann væri einn besti rokksöngvari allra tíma. John Bonham tryggði jafnframt stöðu sína sem besti trymbill heims, ekki síst vegna frammistöðu sinnar í laginu „Moby Dick“.

Gagnrýnandi Rolling Stone, John Mendelsohn, var hins vegar ekki yfir sig hrifinn þegar platan kom út. Hann gerir að gamni sínu og segir „að þar til að þú hefur hlustað á plötuna í 800 skipti, líkt og ég hef gert, þá virðist sem að þarna sé aðeins eitt mjög þungt lag, sem teygir sig yfir tvær hliðar. En hey! Maður verður að viðurkenna það að Zeppelin eru með sína sérstöku og heillandi formúlu alveg á hreinu,“ skrifaði Mendelsohn.

Síðar átti Rolling Stone eftir að setja plötuna á lista yfir 500 bestu plötur allra tíma. Í nýlegri plötudómabók tímaritisins fær Led Zeppelin II fimm stjörnur af fimm mögulegum.

Tekið er fram að „Whole Lotta Love“ hafi verið fyrirmynd sveita á borð við Aerosmith, Guns n’ Roses og Van Halen, svo nokkur þekkt dæmi séu tekin.

Nú er bara að smella plötunni eða geisladisknum í spilarann og hækka í 11!