Hérna kemur stuttur texti úr bókinni Hljóðspor eftir Pétur Hafþór Jónsson, um hið frábæra lag A day in the life.

Lagið er síðasta lag plötunnar Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band og er afbragðs dæmi um góðan árangur af samvinnu Lennons og McCartney þar sem skerfur annars bætir framlag hins upp. Lennon samdi laglínuna og ,,söguna” en vantaði millikafla (B-kafla). Hann hafði þann sið að semja aðeins þegar hann fékk innblástur og vildi ekki þvinga fram það sem á vantaði. Paul átti í handraðanum kafla sem passaði inn í lagið og þeir skelltu bútunum saman.
Texti Lennons er tekinn úr dagblöðum og byggist á tveimur sögum. Annars vegar er frétt af andláti Tara Browne, erfingja Guinness-auðæfanna. Hann var kunningi Bítlanna og hafði beðið bana í umferðarslysi. Hins vegar er frásögn af fjögur þúsund holum í götum borgarinnar Blackburn í Lancashire. Samkvæmt útreikningum sveitarfélagsins var það 1,26 hola á íbúa. Lennon, sem hafði góða kímnigáfu, segir í textanum að búið sé að telja holurnar og því viti menn hversu margar holur þurfi til að fylla Royal Albert Hall-tónleikahöllina!
Tilfinningarík rödd Lennons nýtur sín sérstaklega vel í þessu lagi. Hún hlómar í hægri hátalaranum til að byrja með en færist svo yfir í þann vinstri. Þá kemur 24 takta glissando og crescendo skrifað út af George Martin fyrir fjörtíu og einn hljóðfæraleikara. Sá kafli hefst á lægstu mögulegu nótu hvers hljóðfæris og endar á þeirri hæstu sem hægt er að nota í E-dúr hljómi. Þar á milli voru skrifaðar hlykkjóttar línur á nótnapappírinn og hljóðfæraleikurunum sagt að hlusta ekki á næsta mann við hliðina á sér þegar þeir spiluðu. Lennon vildi að þetta hljómaði ,,eins og heimsendir”, svo notuð séu hans eigin orð. Herlegheitin voru tekin upp fjórum sinnum og upptökurnar lagðar saman.
Svo heyrist Paul McCartney í hægri hátalaranum þar sem hann syngur millikaflann sem er helmingi hraðari en A-kaflinn. Textinn er lýsing á hversdagsleikanum að morgni dags og í algjörri andstöðu við textann sem Lennon syngur. Sá síðarnefndi lýkur laginu með sinni draumkenndu röddu í vinstri hátalaranum. Lokahljómurinn er síðan leikinn á þrjá flygla.
Tökur á laginu hófust aðeins tveimur dögum eftir að Bítlarnir luku við lagið Penny Lane í janúar 1967. Sá tími er hápunkturinn á sköpunarferli þeirra félaga. Þann 25. júní sama sumar sungu Bítlarnir lagið All You Need Is Love í fyrstu beinu gervihnattarútsendingunni.

Ég mæli með að hlusta á lagið á meðan textinn er lesinn, það gefur betri sýn á lagið ;) Svo vona ég að einhver hafi haft gagn og gaman að þessu.

Þetta er mín fyrsta grein á Huga, og þó svo að ég hafi tekið textann upp úr bók megiði endilega koma með ábendingar. :)