Frumraun sýrurokkaranna djúphyglu í Pink Floyd, The Piper at the Gates of Dawn frá árinu 1967, og síðasta hljómskífan í fullri lengd sem furðufuglinn snarbilaði og ofurfrjói Syd Barret samdi, verður endurútgefin í sérstakri viðhafnarútgáfu.

Þar er á ferðinni þriggja plötu pakki með bitastæðu ítarefni, en útgáfurisinn EMI stendur fyrir þessu prýðilega uppátæki.

„Psíkadelískt“ rokkið á hinni undurfögru en sérstæðu ”debút“-plötu Pink Floyd þykir einn af hornsteinum poppsögunnar og ætti útgáfan því að gleðja margan tónelskan manninn. Fyrirhugað er að plötupakkinn komi út 28. ágúst í Norður-Ameríku, en 3. september í Evrópu og mun bæði innihalda stereó- og mónó-útgáfu af hljómverkinu. Á þriðja diskinum verða svo þrjú smáskífulög frá þessu skeiði sveitarinnar og auk þess önnur upptaka af laginu „Interstellar Overdrive” og ýmis b-hliða lög, sem og aðrar fágætar upptökur.

Hugmyndin að útkomunni er sprottin í tilefni 40 ára afmælis plötunnar, en hippaárið fræga 1967 fæddust sérlega mörg meistaraverk poppsögunnar, til að mynda Sgt. Pepper's Lonely Heart Club Band Bítlanna, Beetween the Buttons og Flowers með Rolling Stones, Are You Experienced eftir Hendrix, Disraeli Gears eftir Cream og The Doors með Doors. Hefur þetta ár verið kallað „gullár rokksins" og ekki að ósekju.

Fleiri útgáfur fertugra meistaraverka eru svo víst í bígerð.

Tekið af Mbl.is