Í dag eru nákvæmlega fimmtíu ár liðin frá því að John Lennon hitti í fyrsta skipti gítarleikarann Paul McCartney á Woolton-útiskemmtuninni í Liverpool. Upp frá því hófst eitt allra frægasta samstarf tveggja tónlistarmanna á tuttugustu öldinni og ávaxtanna af samstarfi þeirra í hljómsveitinni The Beatles verður eflaust notið um ókomna tíð.

Litlum sögum fer af fyrsta samtali þeirra félaga en fyrr en varði var McCartney genginn til liðs við hljómsveitina Quarrymen sem Lennon hafði stofnað nokkrum mánuðum áður. McCartney útvegaði sveitinni betra æfingahúsnæði í bílskúr föður síns og áður en langt um leið voru þeir Lennon og McCartney byrjaðir að semja saman lög. Ári síðar taldi McCartney Lennon á að hleypa George Harrison inn í sveitina en Lennon fannst Harrison vera helst til ungur. Stuttu síðar gekk listaskólafélagi Lennons, Stuart Sutcliffe, til liðs við Quarrymen en þá sneru þeir sér að harðara rokki og breyttu nafni sveitarinnar í Johnny and the Moondogs. Það nafn lifði þó ekki lengi.

Árið 1960 breyttu þeir félagar fimm sinnum um nafn.

Fyrst stakk Sutcliffe upp á nafninu the Beetles sem einskonar virðingarvott um Buddy Holly and The Crickets sem hann og Lennon héldu mikið upp á. Lennon fannst Beatals betra. Næst breyttu þeir nafninu í Silver Beats, síðan The Silver Beetles, þá næst Silver Beatles sem Lennon stytti svo að lokum í The Beatles – og Guð sá að það var gott! Samstarf þeirra Lennon og McCartney á árunum 1957-1969 er einstakt í tónlistarsögunni. Eftir þá liggja mörg af frægustu rokklögum allra tíma og enn er The Beatles söluhæsta hljómsveit í Bandaríkjunum fyrr og síðar. Árið 1985 greindi útgáfufyrirtæki The Beatles að sveitin hefði selt um milljarð platna um allan heim og er öruggt að sú tala hefur hækkað allverulega á síðustu tuttugu árum.


Hver samdi hvað?
Lennon og McCartney ákváðu mjög snemma að öll lög sem þeir semdu yrðu eignuð þeim báðum, hvort sem þeir semdu tiltekið lag saman eða ekki. Þrátt fyrir að sú íþrótt hafi orðið æ vinsælli í seinni tíð að geta upp á þeim lögum sem annaðhvort Paul eða John samdi, eru þau örfá lögin sem þeir félagar komu ekki báðir að á einhverjum stigum málsins.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.