Þetta er tekið úr fréttablaðinu í dag:

“Á þessum degi eru tuttugu og sex ár síðan að morðið á John Lennon skók heimsbyggðina. Lennon var eins og flestir vita einn frægasti tónlistamaður heims. Eftir árin með Bítlunum og sólóferil sinn hafði Lennon haft hægt um sig í nokkur ár, en 1980 sneri hann aftur til með plötunni Double Fantasy, sem hann og eiginkona hans, Yoko Ono, unnu saman.
Lennon og Yoko Ono voru á heimleið eftir að hafa varið nokkrum klukkutímum í hljóðveri við tökur á nýju lagi Yoko Ono, þegar Mark David Chapman skaut Lennon fjórum sinnum í bak og öxl. Chapman hafði fyrr um daginn beðið hjónanna utan heimili þeirra í byggingunni Dakota til þess að fá eiginhadaráritun frá Lennon, en hann var mikill aðdáandi tónlistarmannsin. Eftir árásina lagði Chapman frá sér byssuna og settist á gangstéttina, þar sem lögreglan handtók hann. Lennon var fluttur á Rooseveltsjúkrahúsið, en sökum mikils blóðmissis lést hann á leiðinni þangað. Fréttirnar bárust um heiminn eins og eldur í sinu, og aðeins örfáum mínútum eftir að fyrstu fréttum af láti fyrrverandi Bítilsins var útvarpað hóf fólk að safnast saman fyrir utan heimili hans. Það baðst fyrir, söng lög hans og kveikti á kertum.
Chapman játaði sök og hlaut fangelsisdóm frá tuttugu árum til lífstíðar. Honum hefur fjórum sinnum verið neitað um reynslulausn, síðast í október í ár.”