Ég var bara að sjá þetta

David Gilmour heiðrar Syd Barrett!


David Gilmour, gítarleikari Pink Floyd, hefur ákveðið að heiðra minningu vinar síns og fyrirmyndar, Syd Barrett, með því að gefa út þriggja laga plötu í næsta mánuði. Gilmour tók við sem gítarleikari Pink Floyd þegar geðveila gerði Barrett óstarfhæfan, en framlag þess síðarnefnda til hinnar sögufrægu sveitar verður seint metið til fulls. Barrett lést í júlí á þessu ári, sextugur að aldri.

Gilmour ætlar að gefa út tvær útgáfur lagsins Arnold Layne, sem er fyrsta smáskífa Pink Floyd. Báðar þessar útgáfur voru hljóðritaðar á tónleikum David Gilmour í Royal Albert Hall í London fyrr á þessu ári, sitt hvorum tónleikunum reyndar, og í annarri þeirra er hinn eini sanni David Bowie gestasöngvari og í hinni kemur Floyd-arinn Richard Wright við sögu.
Þriðja lagið á þessari heiðursplötu er svo órafmögnuð útgáfa lagsins Dark Globe, en bæði þessi lög eru eftir Syd Barrett.

Lögin þrjú verða eins og áður segir gefin út á smáplötu í desember, en nokkrum dögum fyrir plötuútgáfuna verður hægt að hala lögin niður á netinu gegn greiðslu.