Hljómsveitin Queen komin í hljóðver; ný plata hugsanleg

Hin goðsagnakennda breska hljómsveit Queen er komin í hljóðver í fyrsta skipti síðan Freddie Mercury, söngvari sveitarinnar lést úr alnæmi árið 1991. Að sögn Brian May, gítarleikara sveitarinnar, hefur hann í samráði við Roger Taylor, trommuleikara og Paul Rodgers fyrrum söngvara sveitarinnar Free, samið helling af nýjum lögum.

Þremenningarnir fóru í tónleikaferðalag um Evrópu og Japan í fyrra, og um Bandaríkin fyrr á þessu ári, en það var fyrsta tónleikaferð undir nafni Queen frá árinu 1986.

May, sem er 59 ára gamall, hefur að undanförnu lagt stund á stjörnufræði og hefur nýverið gefið út bók sem heitir „Bang! The Complete History of the Universe“ eða „Bang! Tæmandi saga alheimsins.“ Hann segist þó engan veginn hættur í tónlistinni.

„Við bókuðum þrjár vikur í hljóðverinu. Þetta átti bara að vera smá tilraun, við vildum sjá hvað gerðist þegar ég, Paul og Roger kæmum samana í einu og sama herberginu, ásamt upptökutækjum.“

„Við erum hins vegar djúpt sokknir í þetta nú þegar og við erum komnir með mjög gott efni sem ég er mjög ánægður með, það er bæði nýtt og öðruvísi,“ segir May.

„Þetta gæti verið nóg til þess að búa til heila plötu, en það er full snemmt að segja til um það. Í augnablikinu eru þetta bara nokkur lög, en við skulum sjá hvað setur.“

May og Taylor hafa komið saman í hljóðveri öðru hvoru síðan Mercury lést, en fjórði meðlimur sveitarinnar, bassaleikarinn John Deacon, settist í helgan stein í lok tíunda áratugarins.

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1230716;rss=1