Bretar hafa valið Bítlaplötuna Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band uppáhalds plötuna sína í mikilli könnun á vegum breska ríkisútvarpsins, BBC, í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá því byrjað var að birta opinbera vinsældarlista í landinu. Litlu munaði þó á plötunni, sem kom út árið 1967, og Thriller sem Michael Jackson sendi frá sér árið 1982.

Alls tóku 220 þúsund manns þátt í könnuninni og munaði 201 atkvæði á Sgt. Pepper og Thriller en hlustendur BBC 2 gátu valið á milli platna sem náð höfðu 1. sæti á breska vinsældarlistanum.

Í þriðja sæti var platan Joshua Tree með U2, Rumours með Fleetwood Mac var í 4. sæti og Wish You Were Here með Pink Floyd var í 5. sæti. Bítlarnir áttu 4 plötur í 10 efstu sætunum og einnig plötuna í 11. sæti.

Önnur könnun var einnig gerð um plötur, sem ekki komust í efsta sæti vinsældarlistans. Þar varð Dark Side Of The Moon með Pink Floyd hlutskörpust og The Rise And Fall Of Ziggy Stardust And The Spiders From Mars“ með David Bowie varð önnur.

Alls hafa 787 hljómplötur setið í efsta sæti breska vinsældarlistans frá því hann birtist fyrst árið 1956. Sú síðasta er Eyes Open með Snow Patrol.

listinn yfir 10 vinsælustu plöturnar er þessi:


Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band (1967) - Bítlarnir
Thriller” (1982) - Michael Jackson
The Joshua Tree" (1987) - U2
Rumours (1977) - Fleetwood Mac
Wish You Were Here (1975) - Pink Floyd
Revolver (1966) - Bítlarnir
Bridge Over Troubled Water (1970) - Simon og Garfunkel
Abbey Road (1969) - Bítlarnir
A Night At The Opera (1975) - Queen
The Beatles (1968) - Bítlarnir.