Tekið af mbl.is:

Tvær stórar og áhrifamiklar rokksveitir halda tónleika í Laugardalshöll 24. júní í sumar. Um er að ræða eina af allra stærstu þungarokksveitum sögunnar, Deep Purple, sem ásamt Led Zeppelin og Black Sabbath lögðu grundvöllinn að þungarokki samtímans, og með þeim í för verður að öllum líkindum Uriah Heep sem var ein allra vinsælasta þungarokksveit áttunda áratugarins og átti smelli eins Easy Livin’ og July Morning.
Það er Einar Bárðarson hjá Concert sem stendur að tónleikunum. „Það var skrifað undir við Deep Purple á föstudaginn,“ segir Einar í samtali við Morgunblaðið. „Og það lítur mjög vel út með Heep. Hugmyndin er sú að slá upp hátíð þar sem rokk af gamla skólanum fengi að njóta sín. Ætlunin er að pabbar og mömmur geti komið stolt með börnin sín og kynnt þeim alvöru rokk.“

Einar segir aðgangseyri verða hófstilltan vegna þessa, miðaverð verði líklega nálægt 4000 krónum. Sjóaðar íslenskar rokksveitir verði þá jafnframt dregnar á hátíðina.Spurður um offramboð á tónleikum þetta árið segir Einar að þetta verði einu tónleikarnir sem í boði verða fyrir þá kynslóð sem ólst upp með Purple og Heep. Framboðið sé mikið fyrir ungu kynslóðina þetta árið en lítið sem ekkert fyrir hina klassísku rokkkynslóð. Þessir tónleikar muni bæta þar úr.

Deep Purple er í dag skipuð þeim Ian Gillan, Roger Glover, Ian Paice, Don Airey og Steve Morse. Þrír þeir fyrstnefndu eru upprunalegir meðlimir en Airey og Morse slógust í hópinn fyrir nokkrum árum. Þessi liðsskipan hefur verið á fleygiferð um heiminn síðastliðin tvö ár og hefur leikið við góðan orðstír. Þessi sveit gaf einnig út plötuna Bananas í fyrra sem fékk feikigóða dóma og ef marka má tónleikadóma síðustu missera þá er Purple – enn og aftur – endurfædd sem rokksveit sem kann sitt fag og rúmlega það.

Miðasala hefst í byrjun apríl og verður nánar auglýst síðar.