The Band plús plötudómur og kaupbæti The Band – plötudómur

Um hljómsveitina:

The Band skipa þeir Robbie Robertson (gítarleikari og lagahöfundur, eini meðlimur hljómsveitarinnar sem ekki spilaði á fleiri en eitt hljóðfæri), Levon Helm (aðallega trommari og söngvari), Garth Hudson (allskonar hljómborð og orgel), Richard Manuel (aðalsöngvari og píanóleikari ásamt fleiru) og Rick Danko (bassaleikari og söngvari). The Band byrjaði eiginlega sem tónleikaband fyrir söngvarann Ronnie Hawkins og kallaði hún sig þá The Hawks (nafn sem sumir aðdáenda nota enn þann dag í dag), eftir að hafa túrað vel með Hawkins og gefið út nokkrar singula voru meðlimir The Hawks orðnir leiðir á þeirri sífelldu endurtekningu sem tónleikar Hawkins voru. Eftir að hafa túrað sem sjálfstæðir listamenn í smá tíma fékk John P. Hammond (sonur John Hammond sem meðal annars “uppgötvaði” Dylan) þá til að spila með Bob Dylan á tónleikum, í fyrstu voru The Hawks alls ekki vissir um að Dylan væri hið rétta skref fyrir þá þar sem hann var þekktastur fyrir þjóðlaga og mótmælendatónlist en þeir litu á sig sem rokk og ryþmablús band, á endanum létu þeir þó slag standa og túruðu með Dylan á árunum 1965-66 og hlutu mikið lof fyrir. Þegar Bob Dylan lennti í mótórhjólaslysi árið 1966 fékk hann The Hawks með sér í upptökur á hinum dularfullu Basement Tapes sem komu fyrst út árið 1975 og brúa bilið á milli þess Dylans er sást á Blonde On Blonde og þess sem sást á John Wesley Harding.

The Hawks fóru nú að huga að gefa út sína fyrstu plötu undir eigin nafni (sem enn hafði ekki verið ákveðið og varð í raun aldrei, þeim var bara úthlutað nafninu “The Band” af útgáfufyrirtækinu og höfðu lítið um það að segja) og tóku við upptökur á þeirra fyrstu plötu Music From Big Pink sem hlaut einróma lof gagnrýnenda og þykir enn þann dag í dag vera með bestu “debut” plötum sem gefnar hafa verið út, enda alveg frábært verk. Þeir fóru þá að túra og spiluðu meðal annars á hinni rómuðu Woodstock hátið 1969. Þeir sneru síðan aftur í studíoið (sem var að finna í húsi þeirra sem kallað var “Big Pink” en þaðan kemur heiti fyrstu plötu þeirra) til að taka upp umrædda plötu, meira um þá plötu hér á eftir. Þeir gáfu eftir þetta út fimm stúdío plötur þar á meðal plötuna Planet Waves með Bob Dylan, en enginn þeirra náði þeim hæðum er fyrstu tvör höfðu náð þá svo að plöturnar Stage Fright og Cahoots þyki vera mjög góðar.

Árið 1976 héldu þeir síðan loka tónleika á Þakkagjörðarhátiðardeginum sem titlaðir voru The Last Waltz og fengu með sér einvala lið listamanna svo sem Bob Dylan, Neil Young, Muddy Waters og Eric Clapton. Þeir gáfu reyndar út eina plötu eftir tónleikana, Island (skulduðu útgáfufyrirtækinu eina plötu), sem fékk miðjafnar viðtökur og þar með voru þeir hættir störfum, í bili. Allir meðlimir The Band áttu fínu gengi að fagna sem sólo listamenn en þó einna helst Robbie Robertson sem vann meðal annars mikið með leikstjóranum Martin Scorsese (sem tók upp The Last Waltz og gaf út á samnefndri tónleikamynd).

Árið 1983 komu meðlimir sveitarinnar þó aftur saman, allir nema Robbie Robertson og fóru á túr, þó svo að þeim væri iðulega vel tekið að þá voru þeir ekki að spila á jafn stórum stöðum og fyrr. Árið 1986, á meðan bandið var á tónleikaferðalagi framdi söngvarinn og píanóleikarinn Richard Manuel sjálfsmorð en hann hafði þjáðst lengi af miklum alkahólisma. The Band spiluðu með Roger Waters á risatónleikum hans The Wall í Berlínarborg og á 30 ára afmælistónleikum Bob Dylan, einnig gáfu þeit út þrjár plötur til viðbótar, tvær af þeim innihalda mestmegnis koverlög og engin þykir hafa tærnar þar sem fyrri plötur höfðu hælanna. Árið 1999 lést Rick Danko í svefni, 56 ára gamall en hann hafði notað eiturlyfja lengi og í gegnum næstum allan tónlistarferil sinn.

Platan sjálf:
The Band (sem einnig er kölluð Brúna Albúmið) var tekin upp eins og fyrri plata í húsnæði þeirra sem kallað var “Big Pink” (enda nokkuð stórt bleikt viðarhús), hún var að mestu leiti tekin upp árið 1969 og kom út 22. september það sama ár. Platan náði níunda sæti Billboard listans þegar best lét og spannaði tvo singula (Rag Mama Rag og Up On Cripple Creek) er náðu 57. og 25. sæti. Platan þykir sveitalegri en þeirra fyrsta og vísanir í gamla tíma er undirliggjandi þema á plötunni, þó svo að hljómsveitin sjálf sé kanadísk fókusar þessi plata mikið á bandarískt sveitalíf og þess lags, allt frá borgarastríðinu að verkalýðsvæðingu bænda. Platan inniheldur jafnt fjörug rokk lög sem og rólegri og angurværri kántrílög og blanda vel saman þessum tveim tónlistartegundum, er iðulega, ásamt John Wesley Harding með Dylan og Sweetheart Of The Rodeo með The Byrds, talin ein besta kántrírokk plata sem gerð hefur verið, fyrir mitt leyti er hún töluvert betri en John Wesley Harding hans Dylan en Byrds plötuna hef ég bara ekki heyrt nógu vel ennþá. Á plötunni mætast gamlir og nýjir tímar, platan gæti þess vegan verið tuttugu árum eldri ef ekki væri fyrir nýtísku hljómborðsspileri og þess lags, eða svona hér um bil, auðvitað eru á henni ýmis rokk “element” til dæmis í lögum eins og Look Out Cleveland eða Jawbone.

Stærstu smellirnir á plötunni eru vafalaust lögin Rag Mama Rag, Up On Cripple Creek (eins og áður sagði), The Nigh They Drove Old Dixie Down og King Harvest (Has Surely Come), fyrir mitt leyti eru síðari tvö lögin gæðaflokki ofar en hin. Rag Mama Rag er fjörugt ragtime lag, skemmtilegt en alls ekki djúpt, einföld uppbygging og form sem er í raun eldgamalt og hefði getað verið sungið tuttugu árum fyrr, mér finnst þetta með slakari lögum plötunnar. Up On Cripple Creek er mjög gott lag, lýsir sífelldri sókn mannsins í vin í eyðimörk nútímalífs…eða eitthvað þannig, hresst lag og gott. The Night They Drove Old Dixie Down er sennilega þekktasta lag sveitarinnar ásamt The Weight af fyrri plötu, hér er sagt frá Bandarísku Borgarstyrjöldinni frá sjónarhóli Suðurríkjabóndans Virgil Cain, allir ættu nú að þekkja þetta lag, mér finnst þetta vera eitt besta lagið af plötunni, það er aðeins flóknara en til dæmis Up On Cripple Creek og textinn er flottur og auðskiljanlegur. King Harvest (Has Surely Come) er held barasta eitt besta lag sem nokkurn tíman hefur verið samið, þetta lag er svo ótrúlega flott að það fer auðveldlega á topp 5 lista yfir bestu lög allra tíma (þann lista toppar að sjálfsögðu hið frábæra Tomorrow Never Knows með The Beatles), í þessu lagi er verkalýðsvæðingu bandaríska landbúnaðarins lýst, lagið er nokkuð flókið og taktbreytingar eru margar, frábær endir á frábærri plötu.

Önnur lög sem mér finnst vert að minnast á (ætti reyndar að minnast á þau öll og hvurt veit nema ég geri það) eru Jawbone, Across the Great Divide, Look Out Cleveland, Rockin’ Chair, Whispering Pines og Unfaithful Survant, allt eru þetta topplög, síðari tvö lögin eru angurværar ballöður, er þá Whispering Pines einstaklega flott og söngurinn (sem ég held alveg örugglega sé frá Richard Manuel enda eini meðlimur hljómsveitarinnar sem getur tekið fallsettu) er framúrskarandi. Across The Great Divide er líka einstakt lag, fyrsta lagið á plötunni og setur tóninn rækilega. Glöggir lesendur hafa auðvitað áttað sig á því að aðeins tvö lög vantar til viðbótar við þau lög sem áður hafa verið talin upp og er þá ekki barasta best að ég nefni þau til sögunnar til að loka dæminu, þetta eru lögin When You Awake og Jemima Surrender, að mínu mati slökustu lög plötunnar, vissulega góð lög en ekki í sama standard og hin lögin, þó er fyrra lagið ívið skárra.

Í heildina er þetta frábær plata, að mínu mati betri en frumraun þeirra, þessi plata er hnitmiðari, með meira konsept og heildstæðari, í augnablikinu er þetta mín uppáhaldsplata og The Band mitt uppáhalds band. Þau lög er standa upp úr eru King Harvest, The Night They Drove Old Dixie Down og Whispering Pines. Ef við ætlum að telja í stjörnum fengi þessi plata 9 og hálfa stjörnu af 10 í mögulegum.