"...of svört fyrir hvítt útvarp, en of hvít fyrir svart útvarp..." Þessar upptökur sem hljóðritaðar voru 1966 voru teknar upp af Phil Spector. Framleiðsluferli Spectors og rödd Tinu Turners smullu saman eins og flís við rass. Turner skilar einhverri sterkustu rödd sem brædd hefur verið á vax og Spector sveipar hana mikilfenglegu handbragði sem er jafnvel hans glæsilegasta Wall Of Sound framleiðsla á hans ferli.

Fyrir utan titillagið tók Spector fyrstu þrjú lögin sem Ike & Tina gerðu vinsæl í upphafi ferils þeirra og gerði upp á nýtt, “A Fool in Love,” “I Idolize You,” og “It’s Gonna Work Out Fine.”. Þó það séu hálfgerð helgispjöll að segja þá eru þessar útgáfur betri en þær upprunalegu. Síðan má ekki gleyma framistöðu Ike & Tinu í lagi söngvasmiðanna Holland-Dozier-Holland “A Love Like Yours” sem er annar magnaður hápunktur.

Titillagið var fyrsta lagið sem Ike & Tina gerðu fyrir Philles Records sem var í eigu Phil Spectors. Spector var meðvitaður um stjórnsemi Ike Turners í stúdíóinu svo hann gerði drög að samningi: River Deep – Mountain High albúmið og smáskífan yrðu skrifuð algjörlega á Ike & Tinu. Í staðinn kæmi Ike ekki nálægt stúdíóvinnslunni og Tina yrði ein um að syngja. Þetta var samþykkt og hófust upptökur þar sem Phil Spector beitti allri sinni Wall Of Sound framleiðslutækni til að styðja við sterka rödd Tinu. Í “River Deep – Mountain High”, titillaginu var meðal annars notast við tugi hljóðfæraleikara og bakkraddasöngvara og lagið eitt og sér kostaði þá um 22.000 dollara sem var fáheyrð tala. Þegar smáskífan og síðan platan komu út í USA, þá vissi almenningur ekki alveg hvernig hann átti að taka þessu.

“River Deep – Mountain High” var álitin “of svört fyrir hvítt útvarp, en of hvít fyrir svart útvarp”. Náði einungis #88 á popplistanum og varð til þess að Phil Spector gjöreyðilagðist sem varð þess valdandi að hann lagði niður útgáfufyrirtæki sitt. Í UK var þetta önnur saga. Náði lagið #3 á smáskífulistanum, á eftir The Beatles og The Kinks. George Harrison lét hafa eftir sér að platan sjálf sé “fullkomin hljómplata frá upphafi til enda”. Rolling Stone setti lagið númer #33 á lista sínum yfir 500 bestu lög allra tíma.