Freddie Mercury, annar hluti Þessi grein er samþykkt þann 5 september árið 2006 í tilefni 60 ára afmæli snillingsins Freddie Mercury.
Til hamingju Freddie :D.

ATH: Þetta er annar hlutinn í þessum greinarflokki og því vil ég benda þeim sem ekki hafa lesið hinn hlutann á það að lesa fyrsta hluta hér.


Freddie Mercury, annar hluti


Árið 1971 voru Freddie Mercury, Brian May, Roger Taylor og John Deacon (eða Deacon John eins og Freddie, Brian og Roger kölluðu hann á fyrstu plötunni) í hljómsveitinni Queen.
Þeir áttu ekki mikinn pening en á endanum náðu þeir þó að skrapa saman einhverjum pening til þess að kaupa það sem þá vantaði til þess að halda hljómsveitinni gangandi.

Eitt sinn kynnti Brian, Freddie fyrir vinkonu sinni en hún var 19 ára stúlka að nafni Mary Austin.
Queen eyddi miklum tíma til þess að æfa, semja lög og reyna að þróa þennan “Queenhljóm” sem allir ættu að kannast við.
Einnig spiluðu þeir á nokkrum tónleikum en þessir tónleikar vöktu ekki mikla athygli á meðal almennings.

Freddie var frábær söngvari þrátt fyrir það að hann hefði aldrei fengið neins konar kennslu í söng fyrir utan það að hafa verið í skólakór.
Hann var líka með ótrúlega sviðsframkomu og eflaust hjálpaði það mikið til þegar að Queen var að reyna að komast á toppinn.

Fyrsta tækifæri Queen kom svo þegar að þeir fengu óvænt boð um það að prófa nýtt hljóðver.
Þeir tóku því og notuðu það tækifæri til þess að búa til prufuupptökur sem þeir sendu svo til útgáfufyrirtækja.
Á meðal þessara útgáfufyrirtækja sem að þeir sendu prufuupptökurnar til var útgáfufyrirtækið Trident Music en þeir voru einskonar undirfyrirtæki EMI sem tók upp upptökurnar og sendu þær því næst til EMI sem gaf þær út.
Þessar prufuupptökur báru árangur og þeir fengu samning hjá áðurnefndu útgáfufyrirtæki, Trident Music.
Queen byrjaði því að taka upp sína fyrstu plötu og eyddu þeir miklum tíma í hana og var hún tekin upp á árunum 1971-1972.

Mary Austin og Freddie voru orðin ástfangin og fljótt voru þau farin að búa saman í lítilli og ódýrri eins herbergis íbúð sem var staðsett í Kensington nálægt Victoria Road og kostaði þau aðeins 10 pund á viku og voru þau svo heppin að ”fá” að deila baðherbergi og eldhúsi með öðru pari.

Sumarið 1972 þegar Queen var að taka upp fyrstu plötuna sína var starfsmaður hjá Trident Music sem hét Robin Cable að vinna í gömlu Beach Boys lagi sem hét I Can Hear Music.
Hann var að leita að einhverjum sem gat sungið lagið.
Eftir að hafa heyrt Freddie syngja spurði hann Freddie hvort að hann gæti sungið þetta lag.
Freddie tók þessu með því skilyrði að Roger Taylor og Brian May myndu spila undir og taka þetta upp með honum.
Þessu öllu saman var tekið og út úr því kom smáskífan I Can Hear Music og B-hlið smáskífunnar var lagið Goin’ Back eftir Goffin & King sem The Byrds höfðu áður tekið og seinna coverað af Dusty Springfield.
Smáskífan kom hins vegar ekki út fyrr en árið 1973 og þar sem þessi smáskífa var ekki í sama stíl og önnur lög á fyrstu plötunni var hætt við að skrifa smáskífuna á nafn Queen.
Önnur ástæða er svo að það var stutt í það að “Queen” kæmi út, og á endanum var ákveðið að skrifa smáskífuna á Larry Lurex, nafn sem að Robin Cable hafði stungið uppá.

Í júlí árið 1973 kom svo fyrsta platan þeirra félaga út og hét hún einfaldlega Queen.
Platan vakti einhverja athygli og nokkur lög fengu smá spilun í útvarpi.
Á plötunni eru 5 lög eftir Freddie en þau eru Great King Rat, Liar, Jesus, Seven Seas Of Rhye og My Fairy King.
Þegar að Freddie var að semja lagið My Fairy King datt honum í hug textabrotið “Mother Mercury look what you’ve done to me” en þetta textabrot er sagt hafa gefið honum hugmyndina af því að breyta nafninu sínu í Freddie Mercury, hann bar þetta nafn til dauðadags.

Eftir plötuna fór Queen í tónleikaferðalag um Bretland.

Stuttu eftir að tónleikaferðalaginu var lokið var farið í stúdíó og næsta plata tekin upp.
Þessi plata átti eftir að heita Queen II enn á henni eru 5 lög eftir Freddie, þessi lög heita Ogre Battle, The Fairy Feller Master Stroke, Nevermore, Funny How Love Is og Seven Seas Of Rhye.
Platan seldist ágætlega en á henni er fyrsta smáskífan sem öðlaðist einhverjar vinsældir en það er smáskífan Seven Seas Of Rhye og hlaut hún platínu verðlaun.
Þessi plata er talin ein dekksta og þyngsta plata Queen og telja margir hana besta á eftir plötunni A Night At The Opera.

Í bæklingnum sem fylgir Queen II má sjá merki með Q í miðjunni, fönix efst, krabba fyrir neðan hann, ljón báðum megin við Q-ið og 2 meyjur fyrir neðan það.
Þetta er Queen merkið en það er hannað af Freddie og standa ljónin, krabbinn og meyjurnar fyrir stjörnumerki Queen meðlimanna.
Einnig ef vel er athugað sést að uppröðunin er sú sama á coverinu á plötunni og í myndbandinu við lagið Bohemian Rhapsody og One Vision.

Eftir plötuna fór Queen í tónleikaferðalag um Bretland og Norður - Ameríku sem upphitunarhljómsveit Moot The Hoople, en á þessum tíma var hún ein af frægari hljómsveitum Bretlands.
Í apríl 1974 þegar tónleikaferðin stóð einna hæst veiktist Brian mjög illa og Queen þurftu því að hætta með tónleikaferðina og fara heim.

Freddie, Roger og John fóru því í stúdíó til þess að taka upp nýja plötu en þeir þurftu að byrja á henni án Brian og voru því skilin eftir göt í lögunum handa honum til þess að koma fylla í þegar hann hafði heilsu til.
Í nóvember árið 1974 gáfu þeir út plötuna Sheer Heart Attack og innihélt platan lagið Stone Cold Crazy sem Freddie hafi áður fyrr samið fyrir Wreckage.
Önnur lög eftir Freddie eru Killer Queen, Flick Of The Wrist, Lily Of The Valley, In The Lap Of The Gods, Bring Back That Leroy Brown og In The Lap Of The Gods…Revisited en það síðastnefnda er sagt samsvara Bítlalaginu Hey Jude (en meðlimir Queen voru miklir aðdáendur Bítlanna).
Frægust af þeim eru eflaust Killer Queen og Stone Cold Crazy en Now I’m Here eftir Brian og Killer Queen urðu vinsælustu lög plötunnar.

Eftir plötuna fór Queen í tónleikaferð og voru einir tónleikarnir í þeirri ferð teknir upp en þeir eru til á spólu og heita Live At Rainbow, eru þeir taldir ein besta upptaka af þeim fyrr og síðar.
Queen höfðu áður komið til Norður - Ameríku og Bretlands en þeir höfðu aldrei komið til Japans og þegar þeir komu þangað biðu öskrandi táningar eftir þeim, þeir voru álitnir stjörnur þar, á stærð við Bítlana.
Eftir tónleika þeirra í Japan varð Freddie mjög hrifinn af landinu og varð fljótt mikill aðdáendi Japanskrar listar og antíkar.

Freddie þurfti oft að lækka aðeins hæstu nóturnar á tónleikum vegna þess að hann var með einhverskonar tegund af raddsjúkdómi og neitaði hann að fara í aðgerð.
Dæmi um fórnarlamb þessa sjúkdóms sem fór í aðgerð er söngkonan Julie Andrews en hún missti röddina eftir aðgerðina.

Queen var orðin frekar þekkt hljómsveit á þessum tíma en samt hafði Trident ekki gefið þeim neina launahækkun.
Meðlimum Queen fannst Trident aldrei hafa verið til staðar til þess að veita þeim fjárhagslegan stuðning og því réðu þeir lögfræðinginn Jim Beach til þess að losa þá undan samningi við Trident.
Þeir losnuðu undan samningi en þurftu samt sem áður að borga háar fjárhæðir.
Eftir að málið réðu þeir umboðsmanninn John Reid og ásamt honum sömdu þeir beint við útgáfufyrirtækið EMI.

Freddie og Mary Austin fluttu í nýtt einbýlishús árið 1975 en húsið var á Holland Road og kostaði það þau 19 pund á viku.

Eitt sinn héldu Queen litla tónleika í gamla skólanum hans Freddie’s, Ealing College Of Art.
Það var þá sem að Mary sá að hann ætti eftir að verða stórstjarna hún ákvað því að ganga í burtu þar sem að hún hélt að Freddie þarfnaðist hennar ekki lengur (en hann hafði beðið hana um að mæta sér til stuðnings) Freddie kom þá hlaupandi á eftir henni og spurði hana hvert hún væri að fara, hún svaraði því að hún væri farin heim.

Árið 1975 byrjuðu Queen að taka upp plötuna A Night At The Opera en hét hún eftir samnefndri kvikmynd Marx bræðra.
Platan byrjar á laginu Death On Two Legs (dedicated to …) en lagið er um fyrrum umboðsmann Queen, Norman Sheffield og hatur Freddie á honum.
Freddie samdi líka lagið Bohemian Rhapsody fyrir þessa plötu en það er eflaust hans frægasta lag, talið er að það hafi verið 3 mánuði í vinnslu og náði það fyrsta sæti á vinsældarlistum víðsvegar í Evrópu og 4 sæti í Bandaríkjunum.
Á Night At The Opera eru líka lögin Lazing on a Sunday Afternoon, Seaside Rendezvous og Love of My Life eftir Freddie, en það síðastnefnda er eflaust eitt af mest coveruðu lögum Queen en þekktar hljómsveitir á borð við Extreme og Scorpions hafa tekið það.

Platan var sú kostnaðarsamasta sem gerð hafði verið árið 1975 en kostaði hún 45.000 pund.
Þeir lögðu allt sitt í Night At The Opera vegna þess að þeir voru að fara á hausinn.
Einnig tók mjög langan tíma að taka upp plötuna en vóg þar mest lagið Bohemian Rhapsody en eins og Fredde sagði "Bohemian Rhapsody took a bloddy ages to record”.
A Night at The Opera kom svo loks út þann 21 nóvember árið 1975 og varð hún fljótt mjög vinsæl.
platan er oft talin vera ein af bestu rokkplötum allra tíma og mörgum finnst hún vera besta verk Queen.

Eftir plötuna tók við tónleikaferð en voru haldnir tónleikar í 4 heimsálfum en þær voru Ástralía, Asía, Evrópa og Norður Ameríka.
Tónleikaferðin gekk mjög vel og eftir hana var Queen orðin ein af þekktari hljómsveitum heims.

A Night At The Opera varð gríðarlega vinsæl og fékk hún platínuverðlaun.
Þegar hljómsveitin fékk platínuverðlaunin var Freddie fullviss um að platan sem var í kassanum væri ekki þeirra, heldur einhverrar annarrar hljómsveitar.
Hann reif þess vegna kassann og spilaði hana, og fann út að þetta var platan þeirra eftir allt saman.

Ein jól voru Mary og Freddie á leið heim til foreldra Freddie´s til þess að eyða jólunum með þeim.
Freddie hafði sett gjöf Mary í risastóran kassa og þegar hún opnaði kassann þá var annar kassi inní honum og þannig hélt það áfram þangað til að eftir var pínulítið box og inní því var lítill egypskur verndarhringur.

Árið 1976 gaf Queen út plötuna A Day At The Races sem líkt og A Night At The Opera er hún skírð eftir samnefndri kvikmynd Marx bræðra.
Á plötunni eru ýmis lög sem að Queen hafði verið byrjað á að gera en ekki gefist tími til þess að klára.
Brian May hefur sagt að hann hafi séð nokkurn veginn eftir því að Day At The Races og Night At The Opera hafi ekki verið gefnar út á sama tíma.

Á plötunni eru dæmi um ótrúlega frammistöðu hjá Freddie, þar á meðal er lagið You Take My Breath Away en það er samið af Freddie og er allt lagið sungið af honum einum.
Vinsælasta lag plötunnar sem og uppáhalds Queenlag Freddie´s, lagið Somebody To Love er líka samið af honum.
Fleiri lög sem Freddie samdi eru lögin The Millionaire Waltz og Good Old Fashioned Lover Boy sem varð gríðarlega vinsælt.

Meðal tónleika sem þér héldu á tónleika ferðinni voru tónleikarnir í Hyde Park en þeir settu aðsóknarmet og er talið að á milli 150 til 200 þúsund manns hafi verið viðstatt tónleikana.

Platan náði fyrsta sæti í vinsældarlistum í Japan, Bretlandi og Hollandi en það náði 5 sæti í Bandaríkjunum.
Því má bæta við að þetta er ein af 3 uppáhalds Queen plötunum mínum ásamt Sheer Heart Attack og The Works.

Freddie og Mary voru búin að vera saman í 6 ár, sambandið var farið að dala og Mary var farin að sjá að það væri eitthvað að.
Mary ákvað því að tala við Freddie og spyrja hann hvort að það væri eitthvað að en hann þverneitaði því.

Í byrjun sumars árið 1977 var svo farið að huga að nýrri plötu og byrjað var að taka hana upp í júlí sama ár.
Platan kom svo út í september árið 1977 og hét hún News Of The World.
Hún er talin ein af betri plötum Queen og ein af betri rokkplötum 8 áratugarins.
Freddie samdi aðeins 3 lög fyrir plötuna en þau heita Get Down Make Love, My Melancholy Blues og We are The Champions en það síðastnefnda ættu allir að þekkja.

Þó að We Are The Champions sé eflaust frægasta lag Freddie á þessari plötu þá tel ég það ekki það besta því þó My Melancholy Blues hafi aldrei verið mjög frægt á meðal almennings eins og We Are The Champions, þá er það alveg frábært og þá sérstaklega hve vel Freddie syngur lagið og hve fallegt píanóspilið er.

Platan byrjar á laginu We Will Rock You eftir Brian og því næst kemur lagið We Are The Champions en þessi tveir slagarar eru eflaust 2 vinsælustu lög Queen.
Þau fengu fljótt mikla spilun í útvarpi og voru þessi 2 lög þá oftast spiluð á eftir hvoru öðru (þótt að það hafi aldrei verið ætlun Queen).
Þessi lög er lík á þann hátt að þau eru bæði mjög tónleikavæn þ.e.a.s. þau eru mjög grípandi og skemmtileg og auðveld í meðferð þegar kemur að tónleikum.

Coverið framan á News Of The World er teiknað af Bandaríska sci-fi listamanninum Frank Kelly Freas.
Á coverinu er vélmenni sem heldur á dauðum líkömum Queen-meðlima og á vélmennið að vera að segja “Pabbi lagaðu”.

Freddie var orðin (ásamt Queen) heimsfrægur, samband hans Mary hafði kólnað, og Mary átti sífellt von á því að hann myndi á endanum missa ástina sína í hendur annarar konu.
Einn daginn kom Freddie til Mary og sagði við hana, ég held ég sé tvíkynhneigður.
Mary svaraði, ég held þú sért samkynhneigður.

Ekkert fleira var sagt þau föðmuðust bara.

Mary fannst Freddie hafa verið mjög hugrakkur, hún hafði verið farin að sjá þetta og játning Freddie sýndi að hún hafði haft rétt fyrir sér.
Mary hafði áður óttast það að missa Freddie til annarar konu en aldrei til annars karlmanns.
Hann sagði seinna við hana að honum hafi liðið betur eftir að hafa sagt Mary þetta, hann sagði líka “I realised I had a choice. The choice was not to tell you, but I think you are entitled to your own life.” And I thought, “Yes, as much as you are entitled to yours.”

Mary ákvað að það væri tími fyrir hana til þess að flytja út, en Freddie heimtaði það að hún myndi ekki flytja langt í burtu frá honum og á endanum keypti útgáfufyrirtæki Freddie hús handa Mary á 30.000 pund, hún gat séð húsið hans frá baðherbergisglugganum.
Hún sá að hún myndi aldrei komast út úr lífi Freddie´s en henni líkaði það.
Húsið var lítið og eiginlega fullkomið fyrir einhleypa konu á borð við hana.

Eftir News of The World tónleikaferðina sem gekk mjög vel og gerði Queen ennþá frægari (og þá sérstaklega í Bandaríkjunum) var byrjað á næstu plötu.

Eitt sinn var Freddie beðin um að koma og lesa veðurfréttirnar, lítið meira er frá því að segja en það að honum tókst að segja þær fullkomlega vitlaust.

Platan Jazz var gerð árið 1978 og var byrjað að taka hana upp í júlí og upptöku lauk í október.
Hún kom svo út þann 14. nóvember árið 1978.
Platan seldist lítið miðað við fyrri plötur Queen og var platan gagnrýnd mikið en þó mest af tónlistarblaðinu Rolling Stone sem sögðu meðal annars að Queen hefði ekki nógu gott ímyndunarafl til þess að semja Jazz og að Queen væri kannski fyrsta fasista rokkhljómsveitin.
Frægustu lög plötunnar eru lögin Fat Bottomed Girls, Bicycle Race, og Don’t Stop Me Now en Freddie samdi 2 síðastnefndu lögin.
Einnig eru mörg önnur mjög góð lög á plötunni og þar á meðal eru lögin Dead On Time, Jealousy, Let Me Entertain You og Mustapha.

Lögin sem Freddie samdi fyrir plötuna eru Let Me Entertain You en það var oft spilað fyrst á tónleikum og eins og nafnið gefur til kynna þá er Freddie að “biðja” um að spila fyrir áhorfendur.
Mustapha er líka samið af Freddie og sagt er að hann hafi lent eitt sinn í rifrildi við Brian og það hafi endað á því að Freddie hafi sagt að sama hvað hann myndi semja, það yrði eitthvað þekkt og Brian manaði því Freddie til þess að semja eitt slíkt lag.
Útkoman var Mustapha og Freddie virðist hafa rétt fyrir sér því margir Queen sérfræðingarnir hafa velt sér uppúr því hvað textinn þýðir.
Fimmta lagið sem Freddie samdi fyrir plötuna ber nafnið Jealousy og er rólegt lag sungið af Freddie.

Árið 1978 stytti Freddie hárið en hann hafði áður verið með frekar sítt hár.

Queen urðu fyrir vonbrigðum með plötuna og ákváðu þess vegna að reyna að bæta aðdáendum sínum það upp með því að gefa út fyrstu tónleikaplötu Queen en hún var gefin út 26 júní árið 1979 og var hún tekin upp í Evrópu hluta heimstónleikaferðar Queen.
Platan var tvöföld og varð hún mjög vinsæl en Brian og Roger voru ekki ánægðir með hana og þá sérstaklega hve illa þeim fannst lögunum blandað saman (en þeir sáu um það sjálfir ásamt Freddie og John).

Í október árið 1979 kom Freddie fram með Konunglega Balletinum en það var eitthvað sem honum hafði alltaf langað til þess að gera.
Lögin sem hann valdi til þess að koma fram undir voru Bohemian Rhapsody og Crazy Little Thing Called Love sem Queen hafði þá nýlega gefið út sem smáskífu og átti seinna eftir að koma út á plötunni The Game.
Freddie söng með lögunum á meðan hann dansaði á sviðinu.
Frammistaða Freddie´s vakti mikla hrifningu áhorfenda.

Í kringum byrjun 9 áratugarins breytti Freddie ímynd sinni, hann safnaði yfirvarskeggi losaði sig við naglalakkið og klippti hárið styttra.
Til að byrja með voru aðdáendur Freddie ekkert rosalega ánægðir með þetta og margir þeirra sentu honum naglalakk og rakvél.
Queen byrjaði 9 áratuginn á því að gefa út plötuna The Game.
The Game var tekin upp í júní og júlí árið 1979 og í febrúar fram í maí árið 1980, platan kom svo út þann 30 í júní árið 1980.
Platan sló í gegn og þá sérstaklega í Bandaríkjunum en platan er söluhæsta plata Queen þar í landi.

Fjögur lög sem eru á plötunni urðu vinsælli heldur en hin, þau eru Play The Game, Save Me, Another One Bites The Dust og Crazy Little Thing Called Love.
Á plötunni eru aðeins 3 lög eftir Freddie en 2 þeirra urðu gífurlega vinsæl en þau eru Play The Game og Crazy Little Thing Called Love.

Það er sagt að Freddie Mercury hafi samið Play The Game eftir að hafa hætt með fyrrum kærasta sínum Tony Bastin.
Crazy Little Thing Called Love var eins og áður kom fram gefið út sem smáskífa en lagið var samið af Freddie í sturtu.
Lagið er líka eina lagið sem að Freddie spilar á gítar í en lagið er mjög einfalt aðeins 3 hljómar.
Crazy Little Thing Called Love er mest útvarpsspilaða Queenlag allra tíma og varð það einnig fyrsta lagið sem komst í fyrsta sæti bandaríska vinsældarlistans.
Annað lag af plötunni, lagið Another One Bites The Dust náði svo seinna fyrsta sæti listans og varð þar með annað Queenlagið til þess að komast í fyrsta sæti listans.



Eftir The Game breyttist stíllinn á tónlistinni hjá Queen mjög mikið, lögin urðu poppaðari og Freddie byrjaði einnig að reykja í kringum byrjun þessa tímabils og mátti auðveldlega heyra hvaða áhrif það hafði á röddina á honum.

Þetta tímabil byrjaði í byrjun ársins 1981 og entist til dauðadags Freddie´s þann 24 nóvember árið 1991.
Um þetta tímabil verður fjallað í næstu grein þessa greinaflokks.


Heimildir:
Freddie.ru
Wikipedia
Mr-mercury.co.uk
Queenie.tk

Svo vil ég einnig þakka Bijou fyrir sína ómetanlegu hjálp.

Mig langar líka að benda ykkur á grein mína um lagið Bohemian Rhapsody og 2 plötudóma sem ég samdi með vini mínum Kerslake um plöturnar Queen og Queen II.

Ég biðst afsökunar á öllum stafsetningar, og málfarsvillum og leiðréttingar eru vel þegnar.
Ég þakka svo bara fyrir mig og vonandi nenntuð þið að lesa þetta.

Ástarkv. Huy