1.Kafli ~ Upphafið að…

Hverfum til ársins 1969, Víetnamstríðið er í fullum gangi, Richard Milhouse Nixon er settur í embætti forseta Bandaríkjana, Neil Armstrong stígur fyrstur manna fæti á yfirborð tunglsins, hippasöngleikurinn Hárið fer sigurför um heiminn og skjálfti fer um popp“bransann” á Íslandi þegar hljómsveitin Trúbrot er stofnuð.

Í þessarri grein fjalla ég ekki um Víetnamstríðið , ekki söngleikinn Hárið, ekki um tunglferðir og því síður um Nixon forseta. Ég kýs frekar að fjalla um íslensku “súpergrúppuna” Trúbrot og rekja sögu hljómsveitarinnar , allt frá stofnun hennar í maí 1969 til þess tíma sem ferill hennar var á enda árið 1974. Ég mun í fyrsta lagi fjalla sérstaklega um tvær hljómplötur þeirra, í öðru lagi um tvo þungavigtarmeðlimi hljómsveitarinnar, sem áttu það sammerkt að vera allan tímann í “bandinu” & síðast en ekki síst hljómsveitina almennt og aðra meðlimi hennar.

2.Kafli ~ Ferill Trúbrots

Eins og áður segir var Trúbrot stofnuð í maí 1969 þegar stórhljómsveitirnar Hljómar og Flowers splundruðust og lykilmenn þeirra beggja, Gunnar Þórðarson, Rúnar Júlíusson og Shady Owens úr Hljómum og Karl Sighvatsson og Gunnar Jökull Hákonarson úr Flowers mynduðu “súper-
grúppuna” Trúbrot með tilheyrandi fjaðrafoki. Hljómsveitin hóf strax æfingar af fullum krafti og blöðin veltu fyrir sér hvað hópurinn yrði nefndur. Leitað var til fjölda manna um hugmyndir þ.á.m til Árna Johnsen blaðamanns sem lagðist undir feld og gaf hljómsveitinni nafnið Trúbrot.

Hljómsveitin Trúbrot var stofnuð með því markmiði að skapa alvörutónlist þ.a.s. ekki popptónlist af einfaldari gerðinni. Þeir sömdu tónlist sem var undir sterkum áhrifum frá m.a. Led Zeppelin og Pink Floyd o.fl. Tónlistin var því rokk af þyngri gerðinni en samt mjög fjölbreytt. Allt frá löngum og flóknum tónverkum samanber tónverkið Lifun til einfaldari tónlistar s.s. Byrjanda Boogie af fyrstu breiðskífu þeirra og My Friend and I.

Opinberlega kom Trúbrot fram í fyrsta sinn í júlíbyrjun í gamla Sigtúni við Austurvöll og næsta morgunn var flogið á braut vestur um haf í leit að frægð og frama undir nafninu Midnight Sun. Snemma um haustið var síðan haldið til London sem popphjartað sló, þar hljóðrituðu þau fyrstu plötu sína í hinu vel búna Trident hljóðveri. Alls voru hljóðrituð 13 lög og komu 11 þeirra út á plötunni “Trúbrot” sem gefin var út í upphafi jólasöluvertíðar 1969. Platan var síðan endurútgefin og komu þá í ljós tvö lög sem þeir töldu vera glötuð. Annað þeirra sem heitir “Breyttu bara sjálfum þér” á fullt erindi til hlustenda nú til dags.

Hljómplatan Trúbrot seldist gríðalega vel (um 3000 eintök) og var valin plata ársins af hljómplötugagnrýnendum dagblaðanna Morgunblaðsins og Tímans. Í marsmánuði 1970 var haldið til Köbens að undirlagi Björns Björnssonar leikmynda- teiknara í því skyni aðð hljóðrita nokkur lög og freista gæfunnar. Hljómsveitin tók að sér nafnið Breach of Faith er hún kom fram í hinum fræga Revolution klúbbi og á nokkrum öðrum stöðum í borginni við ágætis undirtektir. Fimm lög voru síðan hljóðrituð í Metrononie hljóðverinu, sem komu síðan út á tveimur litlum plötum þá um vorið.

Fljótlega eftir Danmerkurferðina komu fram brestir í samstarfi hljómsveitarinnar, og í júnímánuði 1970 yfirgáfu Shady Owens og Karl Sighvatsson hana. Shady var orðin leið og langaði aftur á æskuslóðirnar í Bandaríkjunum , en Karl var orðin þreyttur á að vera bara “Kalli í Trúbrot”. Í stað Karls var Magnús Kjartansson fyrrum liðsmaður Júdasar ráðinn, en enginn gat tekið sæti Shadyar. Í ágúst sama ár var Gunnar Jökull rekinn vegna skoðunaágreinings og í hans stað kom Ólafur Garðarsson sem starfaði hafði í Óðmönnum. Hljómplatan “Undir áhrifum” sem hljóðrituð var í Köben haustið 1970, var afrakstur þessa samstarfs og þótti hún m.a. merkileg fyrir þær sakir að vera fyrsta íslenska breiðskífan sem eingöngu var með frumsömdu efni.

Í ársbyrjun 1971 gengu Karl Sighvatsson og Gunnar Jökull aftur til liðs við Trúbrot. Ólafur Garðarsson færði sig yfir til hljómsveitarinnar Náttúru, en Magnús Kjartnasson hélt sínu ásamt Gunnari og Rúnari. Hljómsveitin annaðist tónlistarflutning í uppfærslu Þjóðleikhússins á leikverkinu Faust eftir Göthe, en síðan lokuðu meðlimirnir sig af inní bílskúr við Laugarveginn og þar varð tónverkið “…Lifun” að veruleika, en verkið var frumflutt á tónleikum í Háskólabíói 13.mars 1971 fyrir troðfullu húsi. Shady Owens var heiðursgestur tónleikanna og söng nokkur lög með fyrrum félögum sínum áður en “…Lifun” var frumflutt við mikinn fögnuð viðstaddra. Fljótlega eftir frumflutninginn var haldið til Lundúna og verkið hljóðritað. Trúbrot “…Lifun” var valinn með tíu bestu breiðskífum allra tíma á Íslandi í bók Gunnars Hjjálmarssonar “..Eru ekki allir í stuði?” frá árinu 2001.

Um Hvítasunnuhelgina 1971 stóð Trúbrot fyrir mikilli popphátíð í Saltvík sem gekk undir nafninu “Saltstock” og þar öslaði ungviðurinn, líklega mömmur okkar og pabbar og jafnaldrar þeirra aurinn í grenjandi roki og rigningu í takt við hljómfallið frá helstu rokksveitum landsins. Nokkru síðar hætti Karl í hljómsveitinni og hélt í heimsreisu, félögum sínum til mikillar furðu.

Þegar leið fram á árið 1972 hóf hljómsveitin æfingar fyrir nýja plötu sem hlaut fljótlega nafnið Mandala og var hljóðrituð í Rosenborg hljóðverinu í Köben vorið 1972. Eftir að Mandala kom út fór að halla undan fæti hjá Trúbroti. Gunnar Jökull tók hatt sinn og staf og Ari Jónsson úr hljómsveitinni Roof Tops tók sæti hans. Síðustu mánuðina sem Trúbrot var starfrækt bættist Engilbert Jensen í hópinn sem söngvari og slagverksleikari og Vignir Bergmann fyrrum gítarleikari hljómsveitarinnar Júdasar var sjötti meðlimurinn í þessari stórsveitarútgáfu Trúbrots. Svona skipuð náði sveitin aldrei neinum hljómgrunni og í mars 1973 brustu böndin sem héldu fyrstu “súpergrúppu” landsins saman og hún tilheyrði fortíðinni, þó áhrifa hennar gæti enn rúmum þrem áratugum síðar.

3.Kafli ~ Platan “Undir áhrifum”

“Undir áhrifum” önnur plata súpergrúppurnar ástsælu stendur nokkuð að baki fyrstu plötu Trúbrots og hinnar þriðju með tónverkið Lifun, en er skömminni skárri en síðasta plata sveitarinnar “Mandala”. Hún kom út árið 1970 og er tekin upp í Danmörku. Eins og áður kom fram höfðu þau, Shady Owens, Karl Sighvatsson og Gunnar Jökull Hákonarson gengið úr sveitinni og Magnús Kjartanssson og Ólafur Garðarsson komið í þeirra stað.

Á umslagi plötunnar er mynd af meðlimum hljómsveitarinar á öskuhaugum Keflavíkur. Á plötuumlaginu eru nefndir áhrifavaldar hljómsvetitarinnar, alls 47 talsins og meðal þeirra eru m.a . hljómsveitin Procol Harum, Mogginn, Óli Laufdal, London, Fíkniefnaneysla, Kynferðisnautn og Nixon. Allt í anda hippapælinga & Súrealisma! Platan var eins og áður sagði tekin upp í Danmörku í Wilfoss Studio í október 1970 á 10 rása upptökuvél. Upptöku-maður var Philip Wifoss hver svo sem hann nú er en platan var síðan endurútgefin á geisladisk árið 1992 og Gunnar Hjálmarsson poppgagnrýnandi Pressunnar skrifaði eftirfarandi við það tækifæri.

“Árið er 1970 og platan nýtur þess vafasama heiðurs að vera fyrsta íslenska platan sem er nær eingöngu sungin á ensku. Platan markar þau tímamót að vera algjörlega samin af íslenskum höfundum; hljómsveitarmeðlimunum sjálfum.”

…“Hér eru miklir hippar á ferð, allir með vitin full af reykelsismekki og friðardúfur fljúga um. Útkoman er mjög værðarleg, eins og allir hafi verið á róandi.”

4.Kafli ~ Gunnar Þórðarson

Gunnar fæddist á Hólmavík 1945 og ólst þar upp fyrstu átta ár ævi sinnar, síðan eitt ár í Smálöndum og loks í Keflavík til 1968, er hann fluttist til Reykjavíkur, þar sem hann hefur átt heimili síðan. Gunnar er einn þekktasti popptónlistarmaður landsins, Hann spilaði með Hljómum 1963 - 69 / 2004- , með Trúbroti 1969 - 73, með Ríó Tríóinu á hljómleikum og inn á hljómplötur, með Ðe lónlí blú bojs 1976 og með Sléttuúlfunum og Lummunum. Gunnar hefur gert þrjár sólóplötur, hefur leikið inn á fjölda hljómplatna með framangreindum hljómsveitum, var einn helsti flytjandi og útsetjari hinna vinsælu Vísnaplatna og hljómplötunnar Íslensk alþýðulög og hefur leikið inn á, útsett fyrir og/eða stjórnað upptökum á hinum ýmsu hljómplötum, sem nú munu vera töluvert á annað hundrað talsins

Gunnar hefur samið á fjórða hundrað lög sem hafa verið hljóðrituð. Hann samdi tónlistina fyrir m.a. söngleikina “Á köldum klaka” og einnig fyrir leikritin “´Örfá sæti laus” og “Fjölskyldan” sem sýnd voru hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Þá samdi hann tónlist og lék með Trúbrot í Leikritinu Faust í Þjóðleikhúsinu, eins og áður sagði og samdi tónlistina í kvikmyndina “Óðal Feðranna” og fyrir sjónvarpsmyndirnar Blóðrautt sólarlag, Vandarhögg, Lilja, Djákninn og Steinbarn auk þess sem hann hefur samið tónlist fyrir sjónvarps- og útvarpsstöðvar.

Gunnar hefur útsett og stjórnað uppsetningu á flestum tónlistardagskrám sem fluttar hafa verið í veitingarhúsunum Broadway og Hótel Íslandi. Ein slík dagskrá var helguð Gunnari og tónlist hans. Hann tók saman, Útsetti og stjórnaði dagskrá um sögu dægurtónlistar á Íslandi í fimmtíu ár í tilefni af lýðveldisafmælinu sl. sumar. Gunnar var fyrsti popptónlistarmaðurinn sem hlaut listamannalaun og hann var útnefndur Listamaður Keflavíkurbæjar árið 1992.

5.Kafli. ~ Hápunkturinn …Lifun

Förum aftur til vorsins 1971 þegar Karl Sighvatsson og Gunnar Jökull gengu aftur til liðs við þá Gunnar, Rúnar og Magnús í Trúbroti. Í takt við tíðarandann byrjuðu fimmmenningarnir á því að stilla saman andlega strengi sína, en hófu síðan að semja og æfa nýtt efni. Fljótlega urðu til nokkur lög sem voru fellld saman í eina heild, tónlistaræviskeið frá fæðingu til dauða. Aðeins nokkrum vikum eftir endurfundi fimmmenninganna voru þeir tilbúnir með þetta nýja verk og frumfluttu það á tónleikum í Háskólabíói í apríl undir titlinum “Lifun”. Það var síðan tekið upp í London og gefið út á breiðskífu, ein af þeim allra bestu íslensku frá aldir alda!

Lifun er stórvirki hippatímans á sviði íslenskar tónlistar. Eins og á plötunni “Undir áhrifum” eru Trúbrot á kafi í hippatónlist og óhræddir við að stæla erlendar hljómsveitir. Tónverkin eru hins vegar öllu tilþrifameiri og stundum frumlegri og í flutningi tónlistarinnar er ótvíræður fengur í þeim Karli og Gunnari Jökli. Stórkostlegir múzikantar. Þegar Gunnar Þórðarson og Magnús Kjartansson leggja saman kemur oftast mjög fáguð tónlist út úr þeirra vinnu, en stundum syfjuleg. Það hefur hins vegar aldrei verið nein logmolla í kringum tónlist þeirra Karls Sighvatssonar og Gunnars Jökuls, þótt kraftur þeirra hafi ekki alltaf verið markviss, þá á Lifun ná kostir þessara tónlistarmanna vel saman og á margan hátt er hún hápunktur á ferli þeirra (Ekki gleyma reyndar Kalla sem Þursa, Þursabit er meistaraverk!) Sérstaklega nýtur Magnús Kjartansson sín vel og lag hans “To Be Grateful” er lífseigasta lag hippaárannna í íslenskri poppsögu.

Annmarkar Lifunnar eru sennilega fólgnir í því að Trúbrot hafði ekki skapað sér sjálfstæðan stíl, heldur sveiflaðist á milli aðfenginna stílteguna, ýmist af lagrænu eða blúsrokkuðu tagi. Meðal helstu áhrifavalda á “Lifun” má nefna Moody Blues og Led Zeppelin. Þótt enn hafi skort á frumleika og sjálfstæðan stíl sýndi Trúbrot með tónverkinu “Lifun” að þeir stóðu vinsælum erlendum hljómsveitum ekki lang að baki. Kröfuharðir hlustendur, sem fylgdust vel með nýrri erlendri tónlist, sættu sig vel við “Lifun”, og á næstu misserin töldu menn ástæðulaust að gera aðrar eða minni kröfur til íslenskrar tónlistar en erlendrar.

Í tilefni af M-hátíð á Suðurnesjum árið 1992 var Þóri Baldurssyni falið að skrifa verkið “Lifun” fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og rokksveit. Þorsteinn Eggertsson kom verkinu í íslenskan búning. Hljómsveitirnar ásamt rokksveit og fimm af vinsælustu söngvurum landsins fluttu síðan verkið á umræddri hátíð í Keflavík og þótti það takast svo vel að ákveðið var að endurtaka þá á “degi tónlistarinnar” síðar sama ár. Síðan var svo ákveðið að taka verkið upp og gefið út en þó í örfáum upplögum, 500 stykki eða svo!

6.Kafli ~ Rúnar Júlíusson

Guðmundur Rúnar Júlíusson eins og hann heitir fullu nafni fæddist í Keflavík 13.apríl 1945 og hefur átt þar heima alla sína tíð. Hann hefur ekki langa menntun að baki, lauk þó gagnfræðiprófi frá Gagnfræðaskólanum í Keflavík. Rúnar er giftur Maríu Baldursdóttur, hárgreiðslumeistara og söngkonu. Einnig má til gamans geta að María varð fegurðardrottning Íslands 1969. Saman eiga þau tvo syni þá Baldur og Júlíus, sem báðir hafa fetað í fótspor föður síns og var Júlíus ekki langt frá því að slá í gegn í Bandaríkjunum með keflvísku hljómsveitinni Deep Jimi And The Zep Creams.

Rúnar er einn þekktasti popptónlistarmaður landsins. Hann lék m.a. með hljómsveitunum Hljómum 1963 - 69, Trúbroti 1969 - 73, Ðe lónlí blú bojs 1976, Geimsteini, Áhöfninni á Halastjörnunni, GCD og Bubba og Rúnari. Hann hefur gert fjölda hljómplatna með þessum hljómsveitum og oft verið flytjandi og söngvari með öðrum tónlistarmönnum og samið mikinn fjölda laga og texta sem komið hafa út á ýmsum hljómplötum. Þá hefur Rúnar verið afkastamikill útgefandi hljómplatna. Þá var það Rúnar og útgáfan hans, Gimsteinn sem gaf út þá frábæru plötu Hljóðlega af stað með hinni sér íslenzku Reaggaesveit Hjálmum nú síðustu misserinn.

Rúnar æfði og lék knattspyrnu með ÍBK um árabil, lék með meistaraflokki liðsins og varð Íslandsmeistari með ÍBK 1959 og 1964. Hann hefur setið í stjórn SFH og SHF sl. átta ár, var formaður skólanefndar Tónlistarskóla Keflavíkur í tvö kjörtímabil og stjórnarformaður Geimsteins hf. frá 1976. Margir minnast Rúnars fyrir glæsilega framistöðu á hljómsveitarpallinum þegar hann var að syngja og spila. Einnig fyrir töfrandi klæðaburð, hressilega yfirferð um sviðið og “dúndurkraftinn” í spilamennskunni og söngnum.

7.Kafli ~ …að endinum

Trúbrot er ein virtasta hljómsveit íslenskar tónlistarsögu og fyrsta og trúlega eina súpergrúbban sem starfað hefur á Íslandi. Áður hef ég talað mest um þá Guðmund Rúnar og Gunnar Þórðarson, en það hefur misjafnlega mikið farið fyrir hinum meðlimum sveitarinnar. Gunnar Jökull þótti stórkostlegur trommuleikari og áður en Trúbrot var stofnuð munaði litlu að hann slægi í gegn með breskuhljómsveitinni Syn, aðeins 17 ára gamall, en hann hröklaðist frá Englandi stuttu áður en stórhljómsveitin Yes var stofnuð af rústum Syn. Eftir Trúbrotævintýrið, þó trommaði í stutta stund með Mánum en fór síðan til Svíþjóðar og fréttist ekkert af honum fyrr en seint á níunda áratuginum. Þá hafði hann ánetjast valíumneyslu og lítið komið nálægt trommuleik. Hann reyndi að endurvekja tónlistarferil síns með plötunni Hamfarir frá árinu 1995 og birtist síðan með gömlum félögum á Broadway að endurvekja Trúbrot. Virtist ekki ganga heill til skógar og 2001 lést Gunnar Jökull af völdum alnæmis.

Karl Sighvatsson kom víða við eftir “Lifun” og vann m.a. með Megasi, og var meðal stofnanda “Hins íslenska þursaflokks” og vann síðan sem “session” leikari með ýmsum tónlistarmönnum. Karl lést á sviplegan hátt í bílslysi árið 1991 og voru haldnir tveir minningartónleikar honum til heiðurs, 1992 og 1995. Karl Sighvatsson, þekktur fyrir hammondleik verður minnst sem einn allra besti tónlistarmaður sem þetta land hefur alið af sér! Snillingur ! Magnús Kjartansson tók upp léttara hjal og var mikið í léttpoppinu og var virkur í Eurovision á tímabili. Shady Owens kynntist breskum upptökumanni hér á landi og fluttist með honum til Englands og hún hefur sungið sem bakraddasöngkona hjá heimsfrægum tónlistarmönnum eins og t.d. Sting.

Trúbrot er bara ein af þessum hljómsveitum sem mun lifa um komandi kynslóðir enda með eindæmum fróðlegt að rifja upp feril þessarar merku hljómsveitar og meðlima hennar.


Byggð að mestu úr ritgerð sem unnin var á vormánuðum 1995