Det Betales á Íslandi! Góðan daginn öllsömul, ég hef því miður ekki verið sá allra virkasti hér á áhugamálinu upp á síðkastið en hef þó fylgst með bakvið tjöldin og finnst frábært að sjá þetta áhugamál blómstra jafnfallega og raun ber vitni. Nú eru stóratburðir í vændum, en svo virðist sem að langþráðri löngun Íslendinga í að sjá Bítlana á tónleikum verði brátt svalað (jafnvel og hægt er) og hef ég verið beðinn um að koma eftirfarandi fréttatilkynningu á framfæri, hér á heimaáhugamáli Bítlanna sjálfra.


Nú gefst öllum þeim sem ekki sáu Bítlana á sínum tíma annað tækifæri. Eina kvöldstund verður Broadway breytt í hinn fornfræga Cavern Club þegar hin norska Det Betales tryllir landann og spænir upp skó ballgesta. Det Betales er talin ein allra besta Bítlalagahljómsveit í heimi og er árlegur gestur á hinni einu sönnu Bítlahátíð í Liverpool. Auk heimaborgar Bítlanna hafa þeir troðið upp um víða veröld, til að mynda í Þýskalandi, Spáni og Argentínu svo fá lönd séu nefnd. Þeir hafa m.a. unnið með Tony Sheridan og Allan Williams, allra fyrsti umboðsmaður Bítlanna segir um þá „ -the best Beatles tribute-band in the world today!“. Því ljóst er að hér eru alls engir aukvisar á ferð!

Stuðið hefst á Broadway 18. febrúar og eru allir þeir sem dansa vilja líkt og enn sé 1964 hvattir til að dusta rykið af dansskónum og eiga ógleymanlega kvöldstund. Hið sama á að sjálfsögðu við um þá sem bara vilja njóta tónlistarinnar í lifandi flutningi, en fá tækifæri jafngóð þessu eiga líklegast eftir að bjóðast hér á Íslandi á næstunni.

Húsið opnar á miðnætti þegar stuðboltarnir í Hunangi slá upphafshljóma sína og hita gesti upp fyrir fjörið sem er í vændum. Strax klukkan eitt stíga svo hinir óviðjafnanlegu meðlimir Det Betales á svið og leika af sinni stöku snilld lög þeirrar hljómsveitar sem flestir telja bestu hljómsveit sögunnar, Bítlanna. Fram eftir nóttu munu þeir svo sjá til þess að Bítlalögin hljómi sem aldrei fyrr og ljóst er að enginn verður svikinn af þessum frábæra viðburði.

Miðaverð er 1850 kr + 150 kr miðagjald.

20 ára aldurstakmark.