Simon og Garfunkel - The Boxer Lie la lie, lie la lie lie lie lie lie lie. Þetta hef ég í gegnum tíðina mjög oft sönglað með sjálfum mér ef enginn heyrir til. Lagið heitir The Boxer, höfundurinn Paul Simon og hljómsveitin Simon og Garfunkel. Þetta var fyrsta smáskífan og kom hún út skömmu áður en platan sjálf kom út. Platan varð mjög vinsæl og er ein af söluhæstu plötum áttunda áratugarins og The boxer var ekki síður vinsælt. Það er dæmigert Simon og Garfunkel lag. Þægilegt, gaman að syngja með því en undir því er samt eitthvað miklu meira og dýpra heldur en flest easy listening lög hafa. Textinn er eins og næstum allir ef ekki allir textar Pauls algjör snilld og hann jafnast alveg á við Bob Dylan í þeim efnum. Bob Dylan var einmitt mjög hrifinn af þessu lagi og það er á plötu hans Self Portrait.

Textinn
Hugmyndina af textanum fékk Paul Simon í gegnum biblíuna. Hann var að kíkja í hana og sá frasa eins og „workmans wages“ og ”seeking out the poorer quarters“. Hann sagði að lagið hafi verið um hann sjálfan. Hann hafði fengið leiðnlega gagngrýni og hans skilaboð voru: „Ef þið ætlið að vera með þessi leiðindi þá fer ég bara”.

Það er samt miklu miklu meira við þetta lag heldur en bara þetta. Mín túlkun á laginur er einföld. Þú gengur í gegnum erfiða tíma. Stundum langar þig til að hætta og þú hótar því en innst inni veistu að það gerist ekki. Það er eitthvað sem ber mann áfram og maður gefst ekki upp heldur berst áfram. Þetta er ástæðan fyrir því að Simon notar orðið „fighter“ í laginu. Þó að boxer'inn hætti heldur fighter'inn áfram. Lagið fjallar líka um hversu harður heimurinn er. Ef þú passar þig ekki þá gerir enginn það fyrir þig. „All lies and jest” er vísbending í það.

Uppáhaldslínurnar mínar eru samt:
„In the clearing stands a boxer,
And a fighter by his trade
And he carries the reminders
Of ev'ry glove that laid him down
Or cut him till he cried out
In his anger and his shame,
“I am leaving, I am leaving.”
But the fighter still remains."

Þetta finnst mér eiginlega vera lagið í hnotskurn. Við berum öll ör þess sem hefur gerst fyrir okkur.

Allir sem hafa ekki alist upp við dekur og allsnægtir geta tengst þessu lagi. Og það er ein af ástæðunum fyrir því að þetta lag orðið svona vinsælt. The boxer fer yfir allan tilfinningaskalann: Reiði, depurð, pirring, einmannaleika, vonleysi og von.


Aðeins um upptökurnar

Það var mikið vesen að taka þetta lag upp. Það tók yfir hundrað klukkutíma og var gert á mörgum stöðum í mörgum ríkjum Bandaríkjanna. Þetta var fyrsta lagið þeirra á sextán rásum. Það voru notuð tvö átta rása tæki og það var tíkarlegt að eiga við þau eins og Paul orðaði það sjálfur. Það þurfti að kveikja á þeim báðum á nákvæmlega sama tíma og það skapaði mikið vesen. Samt sem áður tókst það vel og Bridge over troubled water fékk einmitt Grammy verðlaun m.a. fyrir „Best engineering“. Það var mörgum brögðum beitt. Hinn frægi „session drummer” Hal Blaine bjó til drynjandi trommuhljóðið með því að berja þungum við steypugólf inní skáp. Art átti hugmyndina af „instrumental break'inu" í miðju laginu og Paul líkaði það svo vel að hann notaði það í stað eins erindisins. Hann syngur það samt stundum á tónleikum og það var t.d. með á Central Park tónleikunum frægu. Það er gert með stálstrengjagítar með pedala og piccolo trompeti. Á 2003-2004 túrnum spilaði hljómborðsleikarinn Rob Schwimmer það á Theremin og það kom mjög vel út.


Gítarinn í laginu er dæmigert fyrir þá tækni sem Paul notar mest, travis picking style. En það skapar fallegan og fljótandi bakgrunn fyrir vel samstilltu raddir Simons og Garfunkel. Seinna í laginu má svo heyra í trommum, horni og saxafón og strengjasveit.