Sælir Hugarar, ég ákvað að skella inn ritgerð hér sem ég skrifaði fyrir Íslensku í skólanum. Hún er ofsalega takmörkuð vegna lengdartakmarka (er samt of löng) og er skrifuð í flýti, en það verður bara að hafa það.

Gullöld Rokksins er liðin, diskóið er dautt, grunge-rokkið er komið og farið. Undanfarnir fimm áratugir hafa verið viðburðaríkir í tónlistarbransanum og hver byltingin hefur fylgt á fætur annarri. Og nú, á dögum ljósvakans, hefur ný tónlistarstefna rutt sér leið fram á hinn almenna markað; Poppið. Skiptar eru skoðanir um ágæti þessarar þróunar, og oft heyrast raddir kveða um afturför tónlistar í nafni skjóts gróða og fjöldaframleiddra smella. Er eitthvað að marka þessar raddir eða eru þetta eðlilegar framfarir?
Í poppheimi nútímans er ekki óalgengt að söngstjörnur troði fram á svið hálfnaktar með hóp af dönsurum í eftirdragi, syngi lög samin af plötufyrirtækjum og hristi skrokkinn við fyrirfram tölvugerðan takt. Og oftar en ekki eru hljóðnemar ?listamannsins? tengdir beint í tölvuforrit sem hreinsar og leiðréttir röddina áður en henni er skilað út í hátalarana til hundruða öskrandi smástelpna. Enginn er listrænn hljóðfæraleikurinn sem svo einkenndi rokksveitir sjöunda áratugarins; ef einhver hljóðfæraleikari er yfirhöfuð á sviðinu þá var hann líklega útvegaður af útgáfu-fyrirtæki stjörnunnar. Tónlistin sjálf, ef tónlist má kalla þennan tilfinningasnauða trommutakt og meðfylgjandi stunur, skiptir ekki nærri því jafn miklu máli og magahreifingar dansaranna, sem og bert hold þeirra. Þetta er afrakstur hálfrar aldar þróunar dægurtónlistar, og almúginn hrúgast slefandi inn um búðardyr plötu-verslananna til að kaupa það allra nýjasta og tískuvænasta.
Tímarnir breytast segja sumir, og allt þetta hljóðfærabasl var orðið gamalt og lúið. Og hvað með það þótt að söngvarar fari með ófrumsamin lög, fjöldaframleidd og matreidd ofan í fólkið af plötufyrirtækjum í þúsundatali? Ef fólki líkar tónlist skiptir ekki máli hvort flytjandinn eða einhver annar samdi efnið. Og ?look-ið? hefur alltaf verið stór hluti af tónlistinni, hver man ekki eftir þykkum hárlubbum og ögrandi glansgöllum gömlu rokkaranna?
En málið er nefnilega að hljóðfærin eru horfin úr poppin vegna þess eð poppstjörnur nútímans eru valdar vegna útlists fyrst og fremst, og kunna ekki að spila, og það er því alltof tímafrekt að eyða nokkrum árum í að kenna þeim ef hægt er að fá sömu útkomu með tölvum. Og auðvitað hafa hljómsveitir ætíð endurgert lög annarra listamanna, en áður fyrr sömdu sveitir einnig eigið efni og útfærðu sjálfar, ekki til að selja eins mörgum og mögulegt var á sem skemmstum tíma, heldur til þess að tjá og skilgreina sig, sem er grundvöllur allrar fallegrar tónlistar. Það er líka sorgleg staðreynd að stór hluti ungra tónlistarhlustenda kaupa ekki tónlist til að njóta hennar og kynnast sjálfum sér í dýptum hennar, heldur til að þóknast tískuspekingum og þrýstihópum. Útlitið hefur einnig alltaf skipt töluverðu máli í tónlist, enda er útlit ákveðinn tjáningarmáti, en aldrei fyrr en nýlega hefur tónlistin beðið lægri hlut fyrir útlitinu, sem er aðalsöluvara plötufyrirtækja.
Það er því ljóst að með vexti tónlistariðnaðarins og aukins gróða á því sviði hefur tónlistin tekið að skipta útgefendur minna og minna máli í ljósi himinhárra söluupphæða, og til að auka og hraða gróðanum hafa margir tekið upp á því að upphefja lélega fjöldaframleidda tónlist með glæstu útliti, dansi og nekt, og dregið þannig athyglina frá því sem upphaflega skiti mestu máli: tólistin sjálf.
Auðvitað á þetta ekki við um nærri því alla tónlist nútímans, heldur aðeins mjög sýnilegan og vinsælan hluta hennar. Það getur orðið mjög sárt fyrir sanna tónlistarunnendur að fylgjast með þessari bjögun, og aðeins er hægt að vona að tónlistarmönnum framtíðarinnar takist að leiðrétta þessi mistök, og jafnvel að enduruppgötva rætur sínar í fortíðinni, fyrir daga hinna gráðugu plötufyrirtækja.
For those about to rock I salute you!