Ætlaði mér fyrst að svara kork AllesKlar sem má finna <a href="http://www.hugi.is/gulloldin/threads.php?page=view&contentId=1720840">hér</a> en ákvað síðan að henda þessu upp í grein til að fleiri gætu lesið…

Rétt eins og AllesKlar er ekki laust við það að ég hafi það líka á tilfinningunni að tónlist frá þessu tímabili sé vinsælli á meðal barna og unglinga en áður var. Hugsanlega hefur þetta áhugamál ýtt undir það, en er það eitthvað slæmt? Finnst þér ekki betra að vita af því að ungdómur þessa lands alist upp við að hlusta á Led Zeppelin en Limp Bizkit? Er ekki betra að litlu systkin þín hlusti á Pink Floyd en 50 Cent? Hafa börn ekki betur af því að hlusta á King Crimson en Busted?

Ég held að allir þeir sem stunda þetta áhugamál vilji heldur heyra fagra tóna The Doors hljóma úr herbergjum litlu systkina eða þá barna sinna heldur en gítarsarg Korn og Slipknot. Ég held því alls ekki fram að öll tónlist sem gerð hefur verið síðustu 10 árin sé algjör sori sem eigi ekki skilið að verða þrykktur á geisladisk. Sjálfur hef ég á síðustu mánuðum gert gangskör í því að hlusta á nýrri tónlist og verð að segja að mér líkar hún bara frekar vel. Hljómsveitir á borð við Mars Volta og Flaming Lips sóma sér vel í plötusafni mínu, og hið sama á við listamenn á borð við Elliot Smith og Damien Rice. Það er verið að búa til fullt af góðri tónlist í þessum töluðu orðum, en einnig fullt af sora. Rétt eins og tónlist frá Gullaldartímabilinu mun hið góða lifa, en hið slæma gleymast, og ég veit það og vona að allir geri sér grein fyrir því að það var líka búin til léleg tónlist á því tímabili sem hér er kallað Gullöldin, en hún hefur og mun gleymast eftir því sem árin líða.

Við eigum ekki að vera fúl yfir því þótt að litlir krakkar séu farnir að hlusta á þá tónlist sem við vorum kannski ein um fyrir nokkrum árum. Ég sé fyrir mér glæsta framtíð þar sem að börn og unglingar ganga í gegnum Led Zeppelin skeiðið í staðinn fyrir Nirvana skeiðið sem alltof margir falla í. Tíma þar sem að plaköt með The Surpremes kemur í stað Spice Girls á veggjum ungra stúlkna. Tíma þar sem að The Monkees koma í stað plakata með Backstreet Boys. Tíma þar sem að ungir og aldnir, feitir og mjóir, stórir og litlir, hvítir, svartir, gulir, rauðir, grænir og bláir syngja saman stefið í Hey Jude. Við eigum ekki að gráta hvern nýjan einstakling sem ákveður að hlusta á Gullöldina, við eigum að fagna honum!