Það er mikið hægt að segja um tónleikana sem ég fór á í gær, jákvætt og neikvætt, en ég ætla að hafa þetta stutt.

Deep Purple er snilldarhljómsveit sem gert hefur marga heimsfræga slagara sem lifa enn þann dag í dag góðu lífi. Þar má helst nefna Smoke on the water, Hush og Black Night sem eru þeirra þekktustu lög. Í gær, voru flest lögin kynning á nýju plötunni þeirra, Bananas, og þekkti ég þau ekki. Klukkutími af tónleikunum fóru í að kynna þessi nýju lög og það var ekki fyrr en þeir byrjuðu á klassíkinni að salurinn tók almennilega við sér og fólk lét í sér heyra fyrir alvöru. Þetta var ekki best of tónleikar, þetta var kynning á nýjustu plötu þeirra sem er ekki einu sinni komin út á Íslandi.

Þetta fannst mér helsti gallinn við tónleikana hvað það voru fá lög sem maður þekkti. Þrátt fyrir það þá voru umrædd lög alls ekki leiðinleg þannig að mér leiddist ekki. Ég naut þess að hlusta á góða tónlist. Meðlimir Deep Purple eru snilldartónlistarmenn og kunna á hljóðfæri, sérstaklega gítarleikarinn, Steve Morse, en hann er töframaður á gítar. Það var unun að horfa á hann og það var líka sérstaklega skemmtilegt hvað hann sjálfur hafði gaman af að spila. Hann var síbrosandi. Eitt geggjað lag sem hann tók var lagið sem hann samdi um vin sinn sem dó þegar Columbia geimfarið sprakk. Ég hef sjaldan verið eins yfir mig hrifinn af einu lagi og hann tók þarna. Enginn söngur - aðeins gítar í nokkrar mínútur og svo komu hin hljóðfærin inn í. Geðsjúkt lag. Trommarinn, Ian Paice, var klár snilld. Hann var non-stop með kjuðana í tvo tíma. Þéttur og flottur trommuleikur. Gaman að fá svona góða tónlistarmenn eins og þessa tvo, til Íslands. Alls ekki má gleyma bassaleikaranum, Roger Glover, sem tók þvílíkt sóló á bassann og hljómborðsleikaranum, Don Airey, sem sýndi snilldartakta með klassík, m.a. stefið “Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn.” Þá trylltist salurinn. Að lokum, söngvarinn, Ian Gillian, stóð fyrir sínu með góðum söng.

Annar galli við tónleikana var hvað allt var of hátt stillt. Oft og mörgum sinnum þurfti ég aðeins að taka fyrir eyrun svo ég heyrði almennilega í hljóðfærunum því hávaðinn var svo mikill að ég heyrði bara ískur. Það þarf ekki að vera svona rosalegur hávaði. Ég meira að segja heyrði sjaldan sönginn hjá Ian Gillian og textann því hljóðfæraleikurinn yfirkeyrði sönginn, sérstaklega þá orgelið. Það kom mér á óvart hvað allt var hátt stillt. Ég var kominn með hausverk áður en Deep Purple stigu á sviðið því upphitunarhljómsveitin var líka rosalega hávær.

Já, upphitunarhljómsveitin, Mánar frá Selfossi, var rosaleg. Hrikalega er hún góð. Þeir tóku bæði gömul lög frá sjálfum sér og einnig tvö lög frá Uriah Heep, Easy Living og July Morning. Seinna lagið var klikkað. Það var eins og Uriah Heep sjálfir væru komnir til landsins. Geggjað lag og flottur flutningur. Síðasta lagið sem Mánar tók, Þriðja Heimsstyrjöldin, var og er mjög áhrifaríkt og gott. Vel gert hvernig þeir blanda hryllingnum og óhugnaðinum úr stríði saman við flutning lagsins með þyrluflugshljóðum, skothríð og sprengingum. Ég tek ofan fyrir Mánum, vonandi fer að heyrast meira frá þeim. KLAPP KLAPP!

Það besta við tónleikana var tvímælalaust þegar Deep Purple tók Smoke on the Water. Rosalegur kraftur og frábær flutningur hljómsveitarinnar á þessu eina frægasta rokklagi sögunnar.

Tónleikarnir í heild fá frá mér *** af *****. Það sem dregur niður einkunnina var hávaðinn, ég naut lagana ekki jafn vel og á að vera á tónleikum, og svo óþekktu lögin frá Deep Purple. Ég vildi fleiri klassísk lög.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.