Komið þið sæl öllsömul á Huga og gleðilegt ár. Núna eru jólin búin og tími til að fara lifa aftur eðlilegu lífi. Þann 8. janúar eru liðin 69 ár síðan að Elvis Presley konungur rokksins fæddist. Það gerðist árið 1935 í Tupelo Mississippi. Þannig að á næsta ári er stórafmæli og er ég viss um að stjórnendur E.P.E eða Elvis Presley Enterprices munu gera mikið úr þeim degi. Eins og venjan hefur verið að þá er yfirleitt gert mun meira úr dánardægrinu sem er 16. ágúst.
Foreldrar Elvis hétu Gladys Love Smith og Vernon Presley. Það sem ekki margir vita kannski er að Elvis var annar af tvíburum en hinn dó í fæðingu. Móðir hans vissi alltaf að hún myndi eignast drengjatvíbura og var búin að velja nöfnin þegar að hún var bara um það bil hálfnuð með meðgönguna. Andvana bróðir hans fékk nafnið Jesse Garon og sjálfur hét Elvis Elvis Aron Presley. Þau fengu kistu og grófu bróður hans mjög fljótt, veit ekki alveg nákvæmlega og á seinni árunum þegar að Elvis vildi að hann fengi almennilegan grafreit fóru hann og faðir hans að leita á þeim stað sem Vernon minnti að hann hefði jarðsett hann. Hann hafði sett upp kross á staðnum og mundi að það hafði verið skógur upp við gröfina en gat ekki munað þetta nákvæmlega. Elvis fékk á sínum seinni árum mikinn áhuga á öllu dulrænu og var alltaf viss um það hann hefði fengið hæfileika bróður síns með sér í vöggugjöf því þjóðsagan segir að ef annar tvíburi deyr að þá fær hinn hæfileika hans.
Elvis var mjög hændur að mömmu sinni og þegar að faðir hans þurfti að dveljast í tvö ár í fangelsi vegna ávísunarfölsunar tók hann eiginlega við hlutverki karlmannsins á heimilinu. Faðir hans var hálfgerður auli því miður og eitt af fáa góða við hann var að eignast Elvis verð ég að segja. 6 ára gamall fór Elvis í fyrsta bekk í Lawhon school í Tupelo og var þar sín fyrstu skólaár. Þar komst hann í kynni við gospel tónlist flutta af atvinnumönnum og hafði það mikil áhrif á hann.
3. október 1945, fljótlega eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar var hann beðinn um að taka þátt í hæfileikakeppni skólans og varð í öðru sæti. Þar söng hann lag sem hét Old Shep og fjallaði um strák sem er að syngja til hundsins sín. Verðlaunin voru 5 dollarar og ókeypis í öll tæki í nálægu tívolíi en keppnin var að hluta til tengd því.
1948 flytja þau svo til Memphis, ólíkt því sem að margir halda að þá var hann ekki þaðan þó að hann hafi búið þar meirihluta ævi sinnar. Þar gekk hann í skóla að nafni L.C. Humes High school þar sem hann kláraði sitt nám. Þegar að hann var 16 ára vildi hann komast í fótboltalið skólans (eða rugby eins og við þekkjum það) en strákarnir í liðinu vildu ekki sjá hann þar vegna þess að á þessum tíma var hann farinn að safna hári og líka börtum og þeim fannst hann skrýtinn. Einn daginn ætluðu þeir að tukta hann aðeins til og klippa hárið á honum en rétt áður en þeir byrjuðu kom strákur í hurðina að nafni Red West og sagði við þá ,,ef þið ætlið að klippa hann verðið þið að klippa mig líka,, en hann var vöðvatröll og þó svo að þeir hefðu verið fjórir lögðu þeir ekki í hann. Uppfrá þessu urðu þeir vinir og varð hann aðal lífvörður Elvis upp frá því, eða réttara sagt þegar að ferillinn hófst…. en það er önnur saga og efni í aðra grein. Ef þessi grein verður samþykkt að þá ætla ég að gera ýtarlega grein sem mun fjalla um feril Elvis frá A til Ö. Verð hugsanlega að gera hana í 3 pörtum svo að fólk nenni að lesa hana en nóg að sinni