Sumarið 1963 var viðburðaríkt sumar hjá Bítlunum. Strangt tónleikaferðalag um Bretlandseyjar, sjónvarpsframkomur og síðan fengu þeir eigin útvarpsþátt hjá BBC, “Pop Go the Beatles”. En þessi áætlun stöðvaði ekki lubbana fjóra frá því að semja og hljóðrita efni fyrir stóra plötu sem kæmi út með hausinu. Frá júlí fram í miðjan september 1963 hljóðrituðu Bítlarnir With the Beatles þegar tími gafst til. Enn var Please Please Me í efsta sæti breska breiðskífulistans og um sumarið hafði From Me to You farið á topp smáskífulistans og dvaldi þar í 7 vikur. Stórsmellurinn She Loves You kom svo út í ágúst og fór einnig á toppinn.

Þann 22. nóvember kom svo út With the Beatles og er óhætt að segja að hún sé skref í rétta átt að mörgu leiti. Hún hljómar þéttar en Please Please Me og einnig eru frumsömdu lög Lennon og McCartney sterkari á heildina. Greinilegt er að Bítlarnir eru enn að njóta þess að vera orðnir frægu rokkararnir sem þeir ætluðu sér alltaf að verða og spilagleði Cavern daganna heyrist enn vel, sérstaklega í coverlaginu Roll over Beethoven og Please Mister Postman. Einnig hæfa coverlög plötunnar Bítlunum betur en þau sem valin voru á fyrri plötunna. En skoðum þau frumsömdu.

It Wont Be Long er kraftmikið lag sem byrjar með Hvelli og “Yeah!Yeah!Yeah!” kafli lagsins er með þeim minnistæðari og alger snilld. All I´ve Got to Do fylgir og er býsna góð lagasmíð en líður fyrir að vera á eftir fyrsta laginu. All My Lovin er svo hreinn Paul smellur sem steinliggur og er líklegast lífseigasta lag plötunnar. Don't Bother Me er fyrsta lag Harrison á Bítlaplötu og er það alls ekki svo slæmt, þrátt fyrir að nokkuð væri í land hjá unga manninum með að ná góðum tökum á þessari list. Little Child er næst. Það er fjörugt lag en því miður eitt af veiku punktum plötunnar.
Till There Was You er fyrsta coverlagið og er það óaðfinnanlega flutt af tærri og hljómþýðri rödd McCartneys, en einhvern veginn hljómar það svolítið einkennilega á plötunni þegar hún er skoðuð í heild sinni. Please Mister Postman steinliggur í höndum fjórmenninganna ásamt Roll Over Beethoven, en þar fer Harrison hreinlega á kostum í flutningi sínum og er auðveldlega hans besta augnablik sem coverlistamaður.
Hold Me Thight er að mínu mati stórskemmtilegt lag þar sem Lennon/McCartney tvíeykið sannuðu enn og aftur hve gott þeir áttu með að semja smelli. You Really Got a Hold on Me er aftur á móti ekkert sérstakt lag en túlkunin góð.
Síðan er það Ringólag plötunnar I Wanna be Your Man sem er frábært lag, sem Ringó fer létt með og er mun betri en útgáfan Stones af laginu. Devil in Her Heart er veikur punktur á plötunni að mínu mati. Síðan fylgir Not a Second Time sem er skemmtilega drungalegt Lennonlag sem hann hefur sjálfsagt samið aleinn.
Lokalag á With the Beatles er Money, sem er ein magnaðasti lokakafli á rokkplötu EVER. Flutningur Bítlana á þessu lagi er að mínu mati magnaðasta coverútgáfa þeirra á ferlinum þrátt fyrir að það hafi ekki fengið sömu athygli og aðrar. Flutningur þeirra er óvenju villtur og söngur Lennons með ólíkindum kraftmikill og geggjaður.

Hér stíga Bítlarnir ekki mörg feilspor og njóta svo sannarlega augnabliksins. Þessi hráa gleði sem er svo ekta hjá strákunum er smitandi og hittir beint í hjartastað! Einnig er óhætt er að segja að á þessari plötu heyrum við í síðasta sinn hinn óheflaða og grófa Bítlahljóm sem einkenndi þá á Hamborgar/Cavern árunum 1960-62.

Í október 1963 hófst “Bítlaæðið” formlega með notkun þessa orðs í virtu bresku dagblaði og upp úr því var ekki aftur snúið. Bítlarnir voru orðnir fyrirbæri, bylting, já, afl sem ekkert gat stöðvað… nema þeir sjálfi
_________________________________________