Keith Moon Keith John Moon fæddist 23. ágúst 1946 í London, Englandi. Hann var fyrsta barn þeirra Kathleen “Kitty” og Alfred Moon. Alfred og Kathleen eignuðust tvær dætur eftir að Keith fæddist og þau bjuggu öll í Chaplin Road, í skugga Wembley vallar.
Keith Moon sagðist aldrei hafa farið í trommutíma þó að hann hafi gert það. Hann sagði líka öllum að hann væri fæddur árið 1947 þó að hann hafi fæðst 1946. Hann spilaði á trommur ólíkt öllum öðrum trommurum og hann hafði sinn sérstaka stíl sem ekki hafði sést áður. Keith fannst að trommurnar ættu að vera fremst á sviðinu en ekki einhversstaðar aftast þar sem trommarar fengu enga athygli, en hann sá svo sannarlega til þess að það væri tekið eftir trommurum.

Hann var of góður fyrir fyrstu hljómsveitina sem hann gekk til liðs við, en hún hét “The Beachcombers”. Þeir vissu það og einnig hann sjálfur. The Beachcombers var lýst sem “surf” hljómsveit og þeir spiluðu oftast róleg danslög. Keith Moon hlustaði mjög mikið á surf tónlist og uppáhaldstónlistarmennirnir hans voru The Beach Boys og Jan and Dean. Hann hafði mjög sérstakan stíl og honum var oft sagt að slappa aðeins af og hætta að spila svona hátt! The Beachcombers gáfu út eina plötu og bar hún nafnið “Mad Goose”.

Um svipað leyti eða í lok árs 1964 heyrði Keith að hljómsveitin The Who væru að leita sér að nýjum trommara. Hann varð mjög áhugasamur, en það var í raun aðalsöngvari The Beachcombers sem stakk upp á því að hann færi í áheyrnarpróf hjá þeim. The Who voru með áheyrnarpróf á The Oldfield Hotel í Greenford, svo að Keith og mamma hans fóru þangað í prufuna. Keith labbaði upp að Pete Townshend gítarleikara The Who sem sat á barnum með Roger Daltrey söngvara. Pete spurði hann hvort hann kynni að spila Roadrunner og Keith svaraði já. Síðan tók hann sér sæti við trommurnar og spilaði af svo miklum krafti að hann braut bassapedalinn og tvö trommuskinn. Hann fór hræddur af sviðinu og hélt að það yrði ekkert meira af þessu. Roger Daltrey talaði við hann og þeim leist frábærlega á hann. Keith Moon var orðinn trommari The Who og jafnframt yngsti meðlimurinn.

Stuttu eftir að hann gekk til liðs við The Who sannaði hann að hann passaði fullkomlega inn í hljómsveitina og þeir hefðu ekki getað fengið betri trommara en Keith. Þegar Pete Townshend byrjaði að brjóta gítarana sína á sviði, þá tók Keith fljótt undir það og byrjaði að rústa trommusettunum sínum á sviði eftir tónleika, en hann gerði þetta upp á gamanið og fólk hló mikið af þessu. Félagarnir í The Who komust oft á forsíður blaðanna, en ekki fyrir tónlistarhæfileika þeirra heldur þörf þeirra fyrir að rústa bílum, húsum, hótel herbergjum og jafnvel veitingastöðum, og oftast fór Keith þar fremstur í flokki. Hann var ábyrgur fyrir því að The Who voru bannaðir á öllum Holiday Inn hótelum í Bandaríkjunum fyrir að vera með hávaðalæti meðan hann var að halda uppá 20 ára afmæli sitt í Flynt, Michigan. Honum var oft lýst sem brjálæðum breskum rokkara og fékk gælunafnið “Moon the Loon” eða brjálæðingurinn Moon og var hann mjög stoltur af þessu gælunafni sem hann fékk. Hann gaf út sólóplötu árið 1975 sem fékk nafnið “Two Sides of the Moon” og hún fékk ekki góða dóma gagnrýnenda. Hann lék einning í nokkrum kvikmyndum, meðal annars: “That´ll Be The Day og “Stardust”. Hann giftist fyrrverandi fyrirsætunni Kim Kerrigan 17. mars 1966 og á hann með henni eina dóttur: Mandy, fædd 12. júlí sama ár.

Frægð The Who jókst stöðugt og Keith hélt áfram að rústa hótelum, bílum og trommusettum sem hann var svo þekktur fyrir. Hann byrjaði að drekka og taka meiri eiturlyf. Keith og konan hans Kim keyptu sér hús þar sem voru stanlaus partý og drykkja Keith varð orðin mjög slæm. Hann reifst reglulega við Kim og var orðinn ofbeldishneigður. Eitt kvöldið elti hann Kim hjá húsinu þeirra með hlaðna haglabyssu. Hún var hrædd við hann og fór brátt frá honum. Margir sem þekktu Keith sögðu að hann hefði aldrei verið samur eftir að Kim fór frá honum árið 1973. Hann var stöðugt að fara í og úr meðferð og meðlimir The Who tóku eftir að trommuleikur hans var að versna. Hann flutti til Bandaríkjanna árið 1974 með nýju kærustunni sinni, Annette Walter-Lax og þar keypti hann sér strandarhús í Trancas, Los Angeles. Áfengis og eiturlyfja vandamál Keith héldu áfram og Roger Daltrey söngvari var næstum viss um að Keith ætti að fara úr hljómsveitinni. Hann flutti samt aftur til Englands árið 1977 eftir þriggja ára dvöl í Bandaríkjunum og leigði sér íbúð í London með Annette. Seinasta stúdíóplata með Keith sem trommara var “Who Are You” sem var gefin út árið 1978.

6. september sama á fór Keith í veislu til heiðurs afmælis Buddy Holly með Paul McCartney, konunni hans Lindu, Kenny Jones sem seinna tók við af honum sem trommari The Who, David Frost og fleiri frægu fólki fyrir frumsýningu myndarinnar “The Buddy Holly Story”. Hann fór þaðan um kvöldið með Annette heim í íbúðina þeirra. Um kvöldið tók hann lyf sem áttu að hjálpa honum að ná stjórn á áfengisvandamáli sínu. Hann vaknaði um nóttina og tók meiri lyf. Næsta morgun, 7. September 1978 vaknaði Annette til að gá að Keith. Hún kom að honum í næsta herbergi og þar var hann látinn. Hann hafði tekið of stóran skammt af lyfjunum sem áttu að hjálpa honum. Samsærisfræðingar segja að hann hafi verið of vanur eiturlyfjanotandi til að hafa óvart tekið of stóran skammt, að dauði hans væri í raun sjálfsmorð. Sumir, meðal annars John Entwistle bassaleikari The Who halda að hann hafi kafnað til dauða, að vöðvarnir hefðu verið í of mikilli slökun til að kasta upp. Flestir trúa því samt ekki að þetta hafi verið sjálfsmorð. Fjölskyldu hans, vinum og meðlimum The Who var sagt frá þessum sorglega atburði. Keith Moon, einn áhrifamesti og besti rokk trommari sögunnar var látinn.

Keith John Moon 1946 - 1978


Heimildir:

http://www.classicrockpage.com/ rrheaven/kmoon.htm

http://www.drummerworld.com

ht tp://www.allmusic.com