Þessi grein er bæði viðbót og leiðrétting við grein Exwing um Bob Dylan. Ekki er þörf á að hafa lesið þá grein til að lesa þessa enda verður ekki tekið sérstaklega fram þegar fyrrnefnd grein er leiðrétt. VARÚÐ! Þessi grein er frekar löng, svo þú skalt athuga hvort yfirmaðurinn sé ekki örugglega í löngu hádegishléi…

Bob Dylan fæddist 24. maí 1941 (með of stórt höfuð) og var nefndur Robert Allen Zimmerman en þar sem foreldrar hans voru gyðingar hlaut hann einnig hebreskt nafn – Shabtai Ziesel ben Avraham.
Uppvaxtarsögur Bobs skipta litlu máli, þó óneitanlega hafi umhverfið haft gífuleg áhrif á hinn unga mann og aldrei að vita hvað hefði gerst ef hann hefði alist upp í New York eða Los Angels. Á unglingsárunum kom rabbíni í bæinn og kenndi honum hebresku og gyðingleg fræði svo drengurinn gæti gengið í gegnum “bar mitzvah” – en að sögn Dylans fór hann ávallt eftir slíkar kennslustundir á neðri hæð húsins sem rabbíninn bjó í og hékk með hinum krökkunum á ísbarnum og “boogie-aði”. Bob dáðist að rokk og blús hetjum og langaði á þessum aldri að vera eins og Little Richard.
Hann spilaði í nokkrum hljómsveitum (The Shadow Blasters, The Golden Chords og Elston Gunn and The Rock Boppers – þar sem Bob kom fram undir nafninu Elston Gunn). Eftir “high school” bjó Bob hjá ættingum í Fargo (sem er töluvert stærri en heimabær hans Hibbing þrátt fyrir að vera gerður frægur sem endaþarmur veraldar í snilldar mynd Cohen bræðra) þar sem sjóndeildarhringurinn stækkaði. [nokkrum árum og atvikum sleppt – svo einhver nenni etv að lesa þetta].

Um 1960 heldur Bob til New York, en um þær mundir fer hann að ganga undir nafninu Bob Dylan (sem er fengið frá skáldinu Dylan Thomas, en Bob átti árið 1963 eftir að breyta nafni sínu formlega í Bob Dylan). Hann spilaði á litlum búllum og börum sem vildu þjóðlagatónlist (sem Bob fór að hlusta á í stuttri háskólagöngu sinni í Minneapolis). Í stuttu máli sagt var hann frekar slappur, bæði á hljóðfæri og í söng en texta og lagasmíðar hans voru ekki komnar á fullt á þessum tíma. Þegar hann kom aftur til New York eftir nokkra mánuði (sem fóru m.a. í að spila á strippklúbb og búa til ótrúlega lyga sjálfsævisögu).
Í janúar 1961 spilaði hann fyrir Woodie Guthrie þar sem hann lá á sjúkrahúsi nær dauða en lífi (Dylan hætti að sleikja hann upp þegar hann fattaði að Woodie var einungis að nota hann til að upphefja sjálfan sig og auglýsa sig fyrir áhorfendum Bobs). Nú var Dylan farið að ganga betur að syngja, spila og síðast en ekki síst semja. Og í september þetta sama ár “uppgötvaði” John Hammond (eldri) Dylan og þeir skrifa undir samning hjá Columbia.
Frumraunin kom út næsta ár og innihélt jafn mikið af frumsömdu efni og þekktum þjóðlögum (m.a. House of the Rising Sun og Man of Constant Sorrow). Platan er ekki besta frumraun allra tíma og gefur alls ekki fyrirheit um allt sem koma skal en mikið andskoti er hún nú samt góð.

Okei, förum aðeins hraðar yfir sögu núna. 1963-1964 gaf Dylan út 3 plötur: The Freeweelin´(tvímælalaust á topp 10 yfir bestu plötur allra tíma), The Times They Are A-Changin´ og Another Side of Bob Dylan. Þessar plötur eru allar í svipuðu stíl, órafmögnuð þjóðlaga tónlist sem leikin er með söng, gítar og munnhörpu að vopni. Dylan varð á þessum tíma goðsagnapersóna, átrúnaðargoð og mikilvæg breyta í menningarheimi vesturlanda.
Bob Dylan varð þó þreyttur á þessu og fannst hann ekki geta sagt allt eða gert allt sem hann vildi innan þjóðlagatónlistarinnar og lét gamlan draum rætast: fékk sér rafmagngítar og hljómsveit og skapaði nýja tónlistarstefnu: Folk-rock. 1965 komu út plöturnar Bringing it All Back Home og Highway 61 Revisited út (sú fyrri var að vísu bæði rafmögnuð og órafmögnuð – en innihélt líka fyrsta rapplagið, Subterranean Homesick Blues) og uppskar hann með þeim andúð, fyrirlitningu, höfnun og fordæmingu þjóðlaga heimsins. En um leið komu nýir áhorfendur (mun færri en hinir þó). Dylan gafst ekki upp þó að á móti blési heldur blés til heimsrisu með óþekktri kanadískri blúsrokk hljómsveit – The Hawks (sem seinna varð The Band). Hvert sem þeir fóru var búað og baulað (einn áhorfandi á frægum tónleikum í Manchester kallaði hann Júdas þegar Dylan tók upp rafmagnsgítarinn) en þá var bara hækkað í græjunum og látið sem ekkert væri – uppklöpp voru ekki brúkuð á þessum túr, því þeir voru aldrei klappaðir upp, frekar baulaðir niður.
1966 gerðist tvennt stórmerkilegt, út kom Blonde on Blonde (munið eftir Jack Black karakternum í High Fidelity sem aumkar sig yfir manni sem á ekki þessa plötu – því hún er vitaskuld ómissanleg í hvern plötuskáp) og Dylan lenti í mótórhjólaslysi. Slysið varð til þess að hann tók því rólega, hafði það huggulegt með konu sinni Söru Dylan (Lownades) og börnum, dró úr fíkniefnaneyslu sinni og hugaði að veröndinni á húsinu í Woodstock. Strákarnir í The Hawks komu til hans og þeir jömmuðu í kjallaranum, en þar breyttust þeir í The Band.
Og á meðan heimurinn var að fíla sýru og Summer of Love snéri Dylan blaðinu aftur við (enda búinn með sýru/heróín/kók/gras pakkann á árunum 65-66) og tók upp tvær lágstemmdar country plötur. 1970 kom svo New Morning út en sú plata inniheldur meðal annars snilldar lagið The Man in Me (sem Cohen bræður notuðu með eftirminnilegum hætti í The Big Lebowski).

Þá tók við nokkra ára þurrka tímabil og ekkert kom út með kappanum, enda maðurinn upptekin við að hlaða niður börnum. 73 kom þó lagið Knockin’ on Heaven’s Door út á plötu með kvikmyndatónlist eftir Dylan fyrir spaghettí vestran Pat Garrett & Billy the Kid (not worth seeing). Eftir að hafa skipt um plötu fyrirtæki kom fyrsta platan Dylans sem fór í yfir milljón eintökum og náði fyrsta sæti Billbord listans illræmda – Plant Waves heitir platan og er langtum lakari en tónleikaplata með The Band sem kom út sama ár (74) og ber nafnið Before the Flood.

Langvinnur og hatrammur skilnaður (skilnaður-sættir-ofbeldi-skilnaður-sættir-skilnaður-fo rræðisdeila-sátt en skilnaður) teygði sig yfir næstu ár og varð kveikjan að sumum bestu verkum Dylans: Blood on the Tracks og Desire.

79 kemur fyrsta “kristna” platan hans út, en þær urðu þrjár talsins. Reyndar má með góðum rökum segja að allur ferill hans hafi verið undirlagður skírskotunum úr kristni og oft á tíðum fjalla lög hans um kristin/trúarleg málefni.

Níundi áratugurinn var ákaflega dapurlegur fyrir hetjuna okkar, leðurgrifflur, Live Aid og léleg bíómynd hefði verið hægt að fyrirgefa ef hann hefði ekki gefið út þessar plötur…L
En 1989 kom þó ljós í myrkrið og Dylan sendi frá sér (öllum að óvörum) stórgóða plötu (eitt lag úr henni var notað í High Fidelity). En þá kom aftur þurrkur og frá 90 til 96/97 kom líka ritstífla! Bob Dylan, af öllum mönnum, var haldin ritstíflu og kom ekki eitt frumsamið lag frá honum á þessum tíma. Á þessum sorglegum tímum gisti hann á Hótel Esju og hjólaði svo út í Laugardalshöll, þar sem Egill Helgason (í silfrinu) kynnti hann á svið, og hélt frekar slappa tónleika (þó ekki allir sammála um það).
Á síðustu 6 árum (97-03) hafa komið út plöturnar Time Out of Mind og Love and Theft auk óskarsverðlaunalagsins í Wonder Boys (Things have changed) og lags í amerískri sjónvarpsmynd um þrælastríðið. Í júlí kemur svo út kvikmyndin Masked and Anonymus þar sem Dylan leikur aðalhlutverkið, semur tónlistin og sennilega handritið líka (það er sagt vera leyndarmál hver er handritshöfundur). Auk þess hafa Sony menn verið duglegir að endurútgefa meistarastykki og ber þar hæst The Bootleg series, þar sem – eins og nafnið gefur til kynna- bootleg af tónleikum og “afgangs”lög eru gefin út.

Er þá lokið æviágripinu.

Bara stutt í lokin (fyrir þá sem eru greinilega mjög þolinmóðir að lesa svona langt).

Nokkrar af mikilvægustu (úr ótölusettum fjölda) konum í lífi Dylans:
Suze Rotolo – framan á Freewheelin’ umslaginu
Joan Baez – þjóðlagadrottningin sem kom Dylan á framfæri í Ameríku en Dylan borgaði aldrei fyrir sig í Englandi, þar sem hann var vinsæll en hún óþekkt.
Sara Lowndes/Dylan – allir urðu hissa þegar þau giftust, enda fáir sem vissu af tilvist hennar (nema þeir sem mundu eftir henni úr Playboy). Hún var sú kona sem mest og langvörðust áhrif hafði á Dylan og ól honum flest hans börn. Hún og Baez voru um skeið báðar með honum. Börn þeirra; Jesse, Anna, Samuel og Jakob (er í hljómsveitinni The Wallflowers).
Ekki er víst hvort hann hafi gifst bakraddasöngkonu einni sem túraði með honum þegar hann gerðist kristinn (sumir segja hann hafa sett það á svið til að komast í rúmið með henni).

Dylan á nokkur börn til viðbótar (ekki til traustar heimildir um þau öll).

Aðalheimild: Dylan Q (hægt að kaupa það á www.q4music.com) en þar er að finna “allt sem Dylan aðdáandi þarf og allt sem Dylan byrjandi vantar”.

Fyrir þá sem vilja meira er hægt að benda á bestu ævisöguna um hann: Bob Dylan Behind the Shades. The Biography- Take Two.
Á netinu er að finna daglegar Dylan tengdar fréttir á www.expectingrain.com
Og opinbera síðan er nokkuð öflug (m.a. allir textar, hljóðbútar og mjög virkt spjallsvæði) en slóðin er www.bobdylan.com
Á íslensku má alltaf finna svar hefur verið sagt og hér er það í “Hin íslenska Dylan mafía” sem sér um fróðleikinn. Slóðinn þeirra er http://frontpage.simnet.is/bobdylan/
Hægt er að ganga í félagið með því að senda póst á sion@simnet.is

Eins og glöggir hafa tekið eftir er Dylan afar áhugaverður persónuleiki og eiga aðdáendur hans það til að fara dálítið langt í fíkn sinni. Gott dæmi um það er síðan pool.dylantree.com þar sem aðdáendur giska á hvaða lag hann tekur á næstu tónleikum (setlistar eru mjög fjölbreyttir hjá honum, enda úr gífurlegur magni að moða) og eru verðlaun í boði fyrir þá sem gengur vel! Einnig bíður þessi síða upp á bingó af sömu sort.

Og svo vona ég að ekki séu of margar stórar staðreyndavillur í greininni.

“I'm in the amusement business. That goes along with theme parks,
popcorn and horror shows.”
- Bob Dylan