CHANDLER: Ok, worst case scenario. Say you never feel like a father. Say your son never feels connected to you as one. Say all of his relationships are affected by this.

ROSS: Do you have a point?

CHANDLER: You know, you'd think I would.

********

Ég hef horft á Friends mjög lengi - frá því að fyrsti þátturinn var sýndur á Stöð 2 árið 1994/5 (man ekki hvort þeir byrjuðu fyrir eða eftir áramót). Ég var tiltölulega nýkomin frá Bandaríkjunum þar sem þessir þá ósýndur þættir voru mjög mikið auglýstir og því var ég spennt. Svo voru þeir sýndir og ég komst að því að þetta voru hinir ágætustu þættir. Nokkrum árum síðar (eftir 3. seríu) datt ég svo algjörlega inn í þá - fór að leita á netinu eftir síðum, lesa handrit o.þ.h. - ljúfur tími. Og þá gerðist það. Friends manía á Íslandi. Einhvern tímann í kringum 4. seríu varð Friends-sprenging á Íslandi. Fólk hafði auðvitað horft á þáttinn fram að því en þegar spólurnar fóru að koma út var eins og allt yrði vitlaust. Allir horfðu á þættina, allir dýrkuðu þættina. Allir. Og allt í einu gat ég það ekki lengur. Ég hélt áfram að horfa á þá og hafa gaman af en ég gat ekki lengur dýrkað. Það er eins og að við það að verða almannaeign hættu þeir að vera spes.
Ég geri mér grein fyrir að þetta voru aðallega hlutir sem voru að gerast í rugluðum haus mínum en samt - það er eitthvað sérstakt sem gerist þegar þættir/myndir/fólk/hvað sem er - nær ofurfrægð og aðdáun fjöldans. Sumir hafa þann eiginleika að fylgja flæðinu en það er eins og það komi eitthvað stopp hjá mér. Ég get ekki elskað það sem *allir* elska. Ég verð að viðurkenna að það pirrar mig svolítið en á sama tíma situr lítill púki á öxlinni sem segir mér að ég sé of góð og merkileg til að fylgja straumnum og fíla það sem aðrir fíla. En það er eitt að elska eitthvað *bara* af því að aðrir gera það og annað að neita að láta sér líka við eitthvað bara af því að öllum öðrum líkar við það. Stundum er erfitt að rata út úr hype-heiminum.


“Do you have a point?”

“You know, you'd think I would.”


Og samt … þegar allt kemur til alls get ég ekki neitað því að Friends eru góðir þættir. Þetta eru frábærir þættir sem eiga alla þessa frægð og áðdáun skilda. Ef frá eru taldar nokkrar niðurdífur eru þeir einhverjir best skrifuðu og leiknu gamanþættir sem gerðir hafa verið. Það er ekki hlaupið að því að skapa persónur sem eru bæði raunverulegar og fyndnar - eða kómískar aðstæður sem er hvorki fjarstæðukenndar né fáránlegar. Húmorinn er oft á tíðum hárfínn (sjá kvót hér að ofan) og sjaldan augljós og alltaf er sögð góð saga.

Ef einhver spyr mig hvaða þættir séu í uppáhaldi hjá mér nefni ég aldrei “Friends” - en staðreyndin er samt sú að ég á hvern einasta þátt á spólu og kann þá svo til utan að. Nei ég nefni “Buffy the Vampire Slayer”, “Angel”, “Oz” og “Homicide: Life on the Street” - eitthvað sem fáir þekkja og færri horfa á.

Kannski er það bara of auðvelt. Það skiptir kannski engu máli hversu góðir þættirnir eru; ef ég þarf engan að sannfæra eru þeir ekki spennandi.

Er það bara ég?
——————