Klassískir gamanþættir, annar hluti Jæja, þá er loksins komið að öðrum hluta í þessari greinaröð minni um klassíska gamanþætti. Ég ætla að halda mig á svipuðum slóðum og í síðustu grein, eða í Bretlandi. Þaðan koma margir brilliant þættir sem eiga það oft til að týnast í flóðinu af öllum þeim misgóðu þáttum sem streyma frá Bandaríkjunum. (Ekki misskilja mig samt, ég fíla fullt af bandarískum þáttum).

Þættirnir sem ég ætla að fjalla um að þessu sinni eru hinir stórgóðu Spaced. Sumir hérna kannast eflaust við þessa þætti, enda voru þeir sýndir bæði á Rúv og Stöð 2 og einnig er hægt að nálgast þá á netinu eftir ýmsum leiðum sem ég má ekki fjölyrða frekar um í þessum pistli. Það voru aðeins gerðar tvær seríur, og ekki nema 7 þættir í hvorri en engu að síður finnst mér einhvern veginn eins og þeir hafi verið miklu fleiri í minningunni.

Þættirnir eru úr smiðju Simon Pegg (Shaun of the Dead, Hot Fuzz, Big train) en hann leikur aðalhlutverkið í þáttunum ásamt Jessicu Stevenson, en hún er einnig handritshöfundur þáttanna í samvinnu við Simon.

Í stuttu máli fjallar þátturinn um þau tvö, Tim Bisley og Daisy Steiner og sambýli þeirra. Þættirnir hefjast á því að þau hittast fyrir tilviljun og eru bæði að leita sér að íbúð. Til að fá hagstæðari leigu ákvað þau að þykjast vera par og tekst að heilla leigusalann, Mörshu, og fara að leigja saman. Besti vinur Tims er Mike Watt og er hann tíður gestur ásamt bestu vinkonu Daisy, Twist Morgan. Húmorinn er á oft á tíðum ansi steikur en það er það sem okkur líkar best ekki satt? Persónusköpunin í þessum þáttum er alveg hreint brilliant og ansi margar skrautlegar persónur eru tíðir gestir í þáttunum. Ég ætla svo sem ekki að fara að útskýra gang þáttanna í þaula, því sjón er jú sögu ríkari, en í staðinn ætla ég að segja aðeins frá persónunum. Þetta er nánast bein þýðing af Wikipedia, því það er svoldið síðan ég sá þættina síðast!

Aðalpersónur:

Tim Bisley (Simon Pegg): Tim er amatör hjólabrettakappi, Playstation sjúklingur og mjög svo efnilegur myndasöguhöfundur. Hann er einnig mjög fanatískur þegar kemur að tölvuleikjum sem og alls konar “költ” hlutum eins og alls konar sci-hi hlutum, og þá sérstaklega Star Wars myndunum. Í upphafi þáttanna er hann að vinna í myndasögubúð en í seinni seríunni verður þó breyting á sem ég ætla ekki að segja frekar frá. Tim á það til að vera frekar úrillur og geðstirður, sem má að miklu leyti rekja til þess að fyrrum kærastan hans hélt fram hjá honum með yfirmanni hans, sem einnig var góður vinur hans.

Daisy Steiner (Jessica Stevenson): Daisy er andstæða Tims. Meðan Tim er fúllyndur og leiðinlegur í skapinu er Daisy hálfgert sólskinsbarn. Brosmild og kát, oft yfirþyrmandi brosmild og kát. Hún er upprennandi rithöfundur en reynir þó eftir fremsta megni að gera allt annað en að skrifa og bara að vinna yfir höfuð. Hennar æðsti draumur er að ferðast til Indlands og að heimsækja Taj Mahal.

Mike Watt (Nick Frost): Mike er besti vinur Tims og einnig heróður. Ég held að hann sé með gul veiði/skot gleraugu í öllum atriðunum sem hann birtist í eða þar um bil. Æðsti draumur Mikes er að komast í herinn en sökum slyss sem hann lenti í þegar hann var lítill verður hann að sætta sig við heimavarnarliðið. Hann er þó rekinn úr því þegar hann stelur skriðdreka og hyggst gera innrás í Frakkland. Mike gætir Tim mjög vel og er gefið í skyn í þáttunum að hann sé jafnvel hrifinn af honum. Þrátt fyrir heræðið er Mike mjög ljúfur og góður og þykir augljóslega mjög vænt um Tim.

Marsha Klein (Julia Deakin): Marsha er leigusalinn og virðist hún alltaf vera aðeins við skál og sést aldrei án þess að vera með logandi sígarettu í annarri hendinni og rauðvínsglas í hinni.

Brian Topp (Mark Heap): Brian er að leigja í íbúðinni fyrir neðan Tim og Daisy. Brian er listamaður, og nokkuð sérstakur sem slíkur. Við fyrstu kynni virðist hann vera einhverskonar geðsjúklingur en við nánari athugun kemur í ljós að hann er bara svona feiminn og óöruggur. Brian borgar leiguna með því að sænga hjá Mörshu. Það er óhætt að fullyrða að hann sé með skemmtilegri persónunum í þáttunum, enda létt geggjaður.

Twist Morgan (Katy Carmichael): Twist er besta vinkona Daisy. Tim lýsir henni sem: “Sweet, but stupid, or an evil genius.” Hún vinnur í tísku bransanum (í hreinsun) og er tísku fasisti þegar kemur að klæðaburði. Hún og Brian sem eru sennilega algjörar andstæður eiga á tímabili í ástarsambandi, sem flækir málin mjög hjá honum og Mörshu.

Ýmsar aðrar skrautlegar persónur koma reglulega fram í þáttunum, eins og t.d. Bilbo Bagshot (Bill Bailey) sem er eigandi myndasögubúðarinnar sem Tim vinnur í. Þið getið lesið um þá (þar sem greinin er farin að verða í lengri kantinum) á wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Spaced#Recurring_characters og raunar lesið margt annað fróðlegt um þættina á þessari síðu. En farið varlega, hún er uppfull af spoilerum.

Þar til næst, góðar stundir.

Ps. Ef þið eruð virkilega miklir Spaced (og Simon Pegg) nördar ættuð þið að kíkja á: http://www.spaced-out.org.uk/
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _