How I met your mother Það virðist þurfa ansi mikið þessa dagana til þess að gamanþættir nái að fanga athygli mína. Í flestum tilfellum læt ég mér duga að grípa niður í hluta af þætti þegar ég er að bíða eftir einhverju öðru í sjónvarpinu.

Með einni undantekningu.

Ég er kolfallin fyrir How I met your mother

Ég var mjög skeptísk á þá þætti til að byrja með: maður segir börnum sínum söguna af því hvernig hann hitti móður þeirra 25 árum áður. Á það að duga sem efniviður í mörg ár? Sérstaklega þar sem það segir sig sjálft að þættirnir eru búnir um leið og þessi móðir birtist loksins - að maður tali nú ekki um hvað umgjörðin minnir mikið á Friends: fimm vinir sem hanga saman, velta sér upp úr samböndum og lenda í broslegum ævintýrum. En hvað sem hver segir þá endar samanburðurinn þar. Persónurnar eru allar frumlegar og ljóslifandi (ég mana ykkur til að finna samlíkingum með svo mikið sem einni persónu úr Friends) og brandararnir bráðfyndnir. Húmorinn er líka settur upp á annan hátt. Það er auðvitað fatalt að ætla að úrskýra húmor. Þættirnir eru ekki teknir upp í stúdíói fyrir framan áhorfendur eins og venja er heldur teknir upp eins og kvikmynd, klipptir og svo afraksturinn spilaður fyrir áhorfendur sem hlæja með og það tekið upp. Ástæðan fyrir þessu er sú kómíkin sprettur að miklu leyti út frá naskri notkun á tíma og innskotum sem ekki er hægt gera á annan hátt.

Slík gimmik duga auðvitað bara upp að vissu marki - til þess að gera góða þætti frábær þarf hæfa leikara og persónur sem áhorfendur halda með:

Ted (Josh Radnor) - aðalfókus þáttanna og ólæknandi rómantíker. Segir framtíðarbörnum sínum söguna (með rödd Bob Saget) af því hvernig hann hittir móður þeirra og er mjöööög lengi að. Enda frá miklu að segja og útúrdúrarnir margir. Er dauðástfanginn af Robin og er sannfærður um að þau séu sköpuð fyrir hvort annað. Áhorfendur vita betur því það kemur fram í fyrsta þætti að hún er ekki hin verðandi móðir.

Robin (Cobie Smulders) - ung og fögur fréttakona og ástin í lífi Teds (á þessum tíma.) Er hins mjög praktísk, ekki hrifin af samböndum, eiginlega dauðhrædd við sambönd og mjög skeptísk á að hlutirnir muni ganga upp með Ted. Á fimm hunda. Á einnig grusamlega margt sameiginlega með Barney þótt hún sé ekki hrifin af viðhorfum hans til kvenna.

Barney (Neil Patrick Harris) gerir piparsveinshlutverkið að listformi. Öll hans tilvist snýst um skyndikynni og almennt að vera æðislegur. Er sífellt að reyna að fá Ted til að hleypa fram af sér beislinu. Er forríkur en enginn veit hvað hann gerir. Var grenjandi hippi þar til stúlka mölbraut í honum hjartað og gerðist þá ískaldur uppi. Elskar lasertag og blogg.

Marshall (Jason Segel) - besti vinur Teds og meðleigjandi. Verðandi lögfræðingur. Afskaplega ljúfur náungi og að mörgu leyti líkur Ted. Er heitbundinn æskuástinni sinni, Lily. Á rosalega stóra fjölskyldu.

Lily (Alyson Hannigan) – æskuást Marshall. Er leikskólakennari en ekki fullkomlega sátt við hlutskipti sitt. Dreymir um að vera listmálari. Flutti inn til Marshalls og Teds þegar íbúð hennar var breytt í kínverskan veitingastað. Hefur áhyggjur af því að hún sé ekki orðin nógu þroskuð miðað við aldur.

Það besta við þessar persónur er hvað þær eru venjulegar og kunnuglegar. Þær tala um og gera hluti sem maður sjálfur mundi gera. Þær detta í það, mæta í vinnu, eiga engan pening, spila asnalega leiki og búa í pínulitum íbúðum í New York (ja ein þeirra.) Raunveruleikinn nær auðvitað aðeins svo langt (það er t.d. hæpið að kvennbósi á borð við Barney væri jafn viðkunnanlegur) en þannig er nú sjónvarpið.

Ef þið fílið ekki þættina er það skiljanlegt enda smekkur mannanna misjafn - en endilega gefið þeim séns. Ég sá ekki eftir því.
——————