Gæði sjónvarpsefnis Sjónvarp í dag er yfirfullt af miðlungsþáttum. Upp til hópa eru á dagskrá þættir sem þér er alveg sama þótt þú missir af og jafnvel þættir þar sem maður slekkur frekar á sjónvarpinu en að horfa á þá (íslenski Piparsveinninn hvað?)

Ég ætla að setja fram smá kenningu um gæði sjónvarpsefnis. Ég tel að hinn raunverulegi stuðull á gæði þátta sé hvort að þér sé sama um það hvort þú missir af þættinum í sjónvarpinu eða ekki. Er einhver þáttur sem þú bara verður að sjá næsta þáttinn af? Spennan óbærileg, grínið kostulegt og þú verður að fá meira, eða jafnvel sitt lítið af hvoru? Ég held að við könnumst öll við þetta. Laugardagskvöldin mín byrjuðu t.d. aldrei fyrr en ég var búinn að horfa á Friends. Ég var ekkert á leiðinni á djammið fyrr, no way man. Hér áður fyrr voru líka þriðjudagskvöld á Stöð tvö heilög (Handlaginn heimilisfaðir o.fl.) og svo síðar meir miðvikudagar á Rúv (Futurama, Duckman, That 70’s show, Star Trek). Það var bókað mál að ég horfði á Rúv á miðvikudagskvöldum hér áður fyrr og ef ég var ekki staddur þar sem var sjónvarp var dagskráin tekin upp fyrir mig. Það sama gilti að sjálfsögðu um Friends. Joey t.d. kemst ekki í þennan flokk. Ég horfi alltaf á hann ef ég fæ færi á því en hann er bara svona miðlungs þáttur og mér er alveg sama þó ég hafi misst af nánast allri seríunni. Orðið á götunni er samt að önnur sería sé margfalt fyndnari, hvenær kemur hún á klakann?

Í dag er hins vegar enginn dagur sem ég lít þessum augum. Skjár 1 átti svona dag, en það voru fimmtudagar (með Malcolm í broddi fylkingar) en núna nenni ég varla að skipta á Skjá einn lengur á fimmtudögum. Þeir reyndu að laga þetta en skemmdu daginn svo aftur með Silvíu Nótt (er ekki kominn tími á að endursýna Johnny National) og íslenska Piparsveininum (afsakiði á meðana ég æli!) og settu House alltof aftarlega á merina. Fimmtudagar hjá Rúv eru hins vegar að koma sterkir inn núna og ég vil helst ekki missa af Scrubs. That 70’s show eru líka fínir með þrátt fyrir að þeim hafi nú farið aftur.

Þessi grein var nú bara sett fram uppá grínið, fór að pæla í þessu yfir uppvaskinu áðan og ákvað að skrifa þetta yfir eins og einum Jólabjór (þannig að allar innsláttar- eða stafsetningavillur eru hér með formlega afsakaðar!) svona aðeins til að reyna að halda áhugamálinu gangandi.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _