That 70's Show - Svona var það... Þessi grein var birt í nýjasta tölublaði Smells og til að fyrirbyggja allan misskilnig er hún s.s. eftir mig.

—————————————

Vertu svalur! Vertu geðveikt svalur!

Eric Forman er mjög stressaður ungur maður, enda hefur hann fulla ástæðu til þess; Vinir hans eru furðufuglar upp til hópa, pabbi hans kúgar hann við hvert tækifæri, mamma hans heldur að hann sé ennþá 10 ára, stóra systir hans er leiðinlegri en þriggja klukkutíma langur fyrirlestur um hagfræði á heitum sumardegi og kærastan hans er stærri og sterkari en hann. Jebb, svona var það…

Þættirnir That 70’s Show, eða Svona var það… eins og þeir heita á íslensku, fjalla um vinahóp á 8. áratug síðustu aldar, á árunum 1976-1979. Þau búa í bænum Point Place í Wisconsin í Bandaríkjunum og eru ruglaðri en gengur og gerist. Aðalpersóna þáttanna, áðurnefndur Eric Forman, er 17 ára gamall og býr hjá mömmu sinni og pabba, þeim Kitty og Red Forman. Eric eyðir mestum tíma sínum í kjallaranum með vinum sínum og kærustunni sinni, henni Donnu. Það sem krakkarnir hafa tekið sér fyrir hendur er of margt til að telja upp í einni grein (enda komnar sjö þáttaraðir), en meðal annars má nefna ótalmargar ferðir uppí vatnsturn bæjarins (en Kelso tekst einhvern veginn alltaf að detta niður og handleggsbrjóta sig í þeim ferðum), hræðilega hrekkjavökubúninga (Fez var nýbúinn að uppgvöta Rocky Horror myndina), dásamlegasta hlut í öllum heiminum (sem er auðvitað bíll), KISS-plötur (sem eru víst frá djöflinum komnar) og einhyrninga. Helling af einhyrningum. Og þeir eru allir bleikir!

Vinahópurinn
Eric: Eric er hetja þáttanna. Frá fyrsta þætti höfum við fylgst með baráttu hans við pabba sinn, sambandinu við Donnu og öllu því sem hann lendir í. Hann er lítill og mjór, elskar Star Wars og á risastórt safn af G.I. Joe-köllum, sem eru hálfgerðir Action-Man kallar. Að sjálfsögðu er honum endalaust strítt útaf því.
Hefur sagt: ,,Það var eins og að frá því augnabliki væru Eric Forman og Donna Pinciotti ekki lengur til og í staðinn myndaðist ein fullkomin vera… Donneric Forciotti.”

Donna: Nágranni Erics, besta vinkona og kærasta. Þessi háa rauðhærða stelpa finnst miklu skemmtilegra að láta eins og strákur en að mála sig. Hún er góð í körfubolta, er með mjög sterkar skoðanir á hlutunum og lætur strákana sko ekki vaða yfir sig!
Hefur sagt: ,,Hvað meinar hún eiginlega?! Ég er kvenleg. Ég ætti að berja hana fyrir að hafa sagt þetta…”

Hyde: Steven Hyde er besti vinur Erics. Foreldrar hans stungu báðir af og því býr hann heima hjá Forman-fjölskyldunni. Hann kennir ríkisstjórninni um allt sem illa fer og sér samsæri í hverju horni.
Hefur sagt: ,,Að vera Kelso er eins og að vita sannleikann á bak við alla spillinguna í samfélaginu án þess að geta sannfært einn einasta mann um að það sé eitthvað að, maður. Nei bíddu… það er ég!”

Kelso: Ekki sá gáfaðasti í hópnum. Langt í frá. Michael Kelso á við það vandamál að stríða að fá góðar einkunnir í skólanum en vera algerlega blindur á allt það sem kallast almenn skynsemi í daglegu lífi. Hann er alltaf rangur maður á röngum tíma, blaðrandi eitthvað óviðeigandi og dettur á hausinn eða rennur á andlitið að meðaltali einu sinni í hverjum þætti. Og honum finnst rosalega gaman að leika sér með hundum. Ég veit ekki alveg afhverju…
Hefur sagt: ,,Sko, ef þetta tengist ekki ókeypis ís, strípiblaki eða hundi með hatt og sólgleraugu, þá vil ég ekki vita af þessu!”

Fez: Fez er skiptinemi frá… jah, enginn veit hvaðan hann kemur, en hann er allavega skiptinemi. Hann dansar eins og Travolta og elskar diskótónlist. Þá er hann haldinn óseðjanlegri þrá gagnvart súkkulaði. Og stelpum. Megum ekki gleyma því.
Hefur sagt: ,,Sjáiði! Fyrsti snjóboltinn minn! Ég elska snjó svo mikið að ég finn ekki fyrir puttunum mínum af gleði!”

Jackie: Algerlega óþolandi stelpugríslingur. Hún er klappstýra, ein af svölu stelpunum, og eina ástæðan fyrir því að hún er í þessum vinahóp er sú að hún og Kelso voru saman. Reyndar eyddi Kelos heilu ári í að lofa því að ,,…í dag segi ég henni upp,” því krakkarnir voru að verða vitlausir á henni en ekkert varð úr því. Hún þolir ekki fólk sem á ekki pening og er ofdekruð.
Hefur sagt: ,,Af hverju vill hann ekki elska mig? Ég vildi óska þess að pabbi gæti keypt hann fyrir mig…”

Fyrsta þáttaröðin var gerð árið 1998 og sló hún strax í gegn. Krakkarnir sem leika í þáttunum hafa verið að prófa sig áfram í kvikmyndaheiminum á síðustu arum og eru mörg hver orðin stórar stjörnur. Má þá helst nefna þá Ashton Kutcher (Kelso) og Topher Grace (Eric). Í þessum skrifuðu orðum er verið að gera 7. seríuna og verður hún að öllum líkindum sýnd á RÚV næsta vetur. Þá má skjóta því inní fyrir hörðustu aðdáendurnar að fyrstu tvær seríurnar eru komnar á DVD.

Reyndar verður að viðurkennast að miðað við þá stefnu sem framleiðendur þáttanna eru með sé þátturinn á leiðini í rulsið. Hvers vegna? Jú, sjáiði til; Bæði Topher Grace (Eric) og Atshon Kutcher (Kelso) eru að hætta í þáttunum, en þeir ætla samt að halda áfram með þá! Kelso mun koma sem svona reglulega guest-star, en hvernig þeir ætla að gera þættina án Erics get ég ekki ímyndað mér og finnst í raun fáránlegt! Já, og svo eru þeir búnir að lita Donnu ljóshærða!

Mergjaðar staðreyndir:

• Bærinn Point Place í Wisconsin er ekki til í alvörunni.
• Mila Kunis (Jackie) var 14 ára gömul þegar hún fékk hlutverk í þáttunum. Þegar framleiðendur þáttanna spurðu hana hvað hún væri gömul sagði hún ,,Ég verð 18 ára á afmælinu mínu.” Hún virðist hafa gleymt að segja þeim hvaða afmæli…
• Enginn veit hvað Fez heitir í raun og veru. Nafnið er dregið fyrstu stöfunum úr orðinu ,,Foreign exchange student”, sem þýðir skiptinemi á ensku.
• Það var mikið vesen að finna nafn á þáttinn. Nöfnin ,,Teenage wasteland”, ,,The Kids are alright” og ,,Feelin’ alright” komu sterklega til greina, en vegna ýmissa ástæðna var ekki hægt að nota þau. Þegar verið var að prufukeyra þáttinn fyrir fólk voru margir sem sögðu ,,I like that 70’s show,”. Nafnið festist svo við þáttinn.
• Heimasíða þáttarins er á hinni frumlegu slóð www.that70sshow.com
"