“Leikararnir sem leikið hafa í bandarísku sjónvarpsþáttunum Vinum í tæpan áratug hafa fallist á að gera tíundu þáttaröðina á næsta ári. Þetta kemur fram á fréttavef Daily Variety í dag. Þar segir að sjónvarpsstöðin NBS muni greiða framleiðanda þáttanna, Warner Bros., um 10 milljónir dala fyrir hvern þátt, eða um 850 milljónir króna og er sjónvarpsþátturinn því einhver sá dýrasti sem um getur.
Til þessa hefur Warner Bros. sett upp 7 milljónir dala fyrir hvern þátt. Sjónvarpsþættirnir ER kostuðu 13 milljónir hver þáttur þegar vinsældir þeirra voru hvað mestar en ER-þættirnir eru klukkutíma langir.

Laun aðalleikaranna sex, Jennifer Aniston, Courteney Cox, Lisa Kudrow, Matt LeBlanc, Matthew Perry og David Schwimmer verða um 1 milljón á hvern þátt, eða um 85 milljónir króna, að sögn Daily Variety.

Samningaviðræður hafa staðið milli framleiðandans og leikaranna að undanförnu og snérust þær ekki aðallega um launamál heldur hve margir þættir verði gerðir. Leikararnir vildu ekki skuldbinda sig til að gera 22 þætti, eins og venja hefur verið.

Vinir voru næst vinsælustu sjónvarpsþættirnir í ár í Bandaríkjunum á eftir CSI: Crime Scene Investigation sem sýndir eru á CBS. Þá hlutu þeir Emmy-verðlaun sem bestu gamanþættirnir og Aniston var valin besta gamanleikkonan. ”
(tekið af www.mbl.is)

þetta er frábært mál, hvað finnst ykkur???