Halló allir. Ég er hér bara til að auglýsa sýningunna hans Þórðars Ingvarssonar. Þetta er allt tölvugrafík og eru flestar myndirnar mjög fantasíukenndar. Allar myndirnar hans gerir hann í Bryce, Photoshop, Poser, 3d Studio max og meira.

Ég verð að segja ég hef séð margar myndirnar hans og hann er algjör snillingur. Þeir sem trúa mér ekki ættu að kíkja á sýningu hans sem er á Mokka, Skólavörðustíg. Hér er grein um hann og sýningu hans úr fókus:

Þórður Ingvarsson sýnir á Mokka
“Þórður Ingvarsson (f. 1979) opnar í dag sýningu sína á Mokka, Skólavörðustíg. Þórður er uppalinn á Hornafirði og hefur tölvugrafík átt hug hans allan undanfarinn áratug. Þeirri kynslóð sem nú vex úr grasi er stafrænn heimur í blóð borinn. Þórður hefur enga formlega menntun í tölvugrafík og þó hefur hann lagt sig meira fram við að kynna sér og kanna alla nýjustu anga hennar en margur fagmaðurinn. Hér birtist okkur því eðlislægur fremur en skólaður sýndarveruleiki - einlæg sköpunarþrá án hátíðlegra málsvara eða markaðslegra hafta, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Ólíkt mörgum ungmennum dagsins í dag hefur Þórður komist í tæri við ýmsa atvinnuvegi landsins, unnið við síld, þorsk, ýsu og humar, starfað sem lagermaður, afgreiðslumaður og verslunarmaður, verið smiður og málari og unnið fyrir sér í sjoppu, sláturhúsi og Bónus jafnt sem á smurstöð og bensínstöð. Hann hefur með öðrum orðum dýft hendinni ofan í kalt vatn. Hann sér um sig sjálfan og vinnur um þessar mundir á geðdeild. Þrátt fyrir áralanga ástundun við tölvugrafík, milli þess að útvega salt í grautinn, hefur Þórður aldrei getað lifað á þeirri vinnu, með tveimur undantekningum sem lofuðu góðu en hann fékk ekkert fyrir. Eðlislæga vitið verður seint í askana látið enda nógu erfitt fyrir þótt hæstu prófgráður séu fyrir hendi. Hins vegar hefur Þórður ákveðið að útskrifa sjálfan sig úr menntaskóla reynslunnar með sinni fyrstu einkasýningu á Mokka. Þórður vinnur aðallega með Photoshop, Illustrator og Poser en er kunnugur í mörgum öðrum forritum á borð við 3d Studio Max, Ray Eream Studio, Bryce og Macromedia tólunum (Flash, Director, Freehand o.fl.), auk hljóðforrita á borð við Wavelab, Sound Forge, Acid og Buzz, svo ekki sé minnst á endalausa runu af tölvuleikjum sem of langt mál væri að telja upp. Sýningin hefst í dag, sunnudaginn 15. júlí, og stendur til 11. ágúst og verður á Mokkakaffi á Skólavörðustíg.”

Ég skora á ykkur alla að mæta á þessa sýningu.