Norður-írski kylfingurinn Darren Clarke hætti þátttöku eftir fyrsta hring á Ford Meistaramótinu í Miami, sem hann lék hann á 75 höggum. Ástæðan var sú að hann fann fyrir eymslum í rist vinstrifótar. Hann segir meiðslin ekki alvarleg, en þau stafi af of miklu æfingaálagi að undanförnu. Það hafi því verið nauðsynlegt að hvíla.

Eftir að hann féll úr keppni í fyrstu umferð á Accenture heimsmótinu í holukeppni fyir hálfum mánuði æfði hann mjög mikið fyrir Ford-mótið. Hann var farinn að finna fyrir eymslum í ristinni í síðustu viku og það hafi síðan versnað eftir fyrsta hringinn á Ford-mótinu. Þess vegna ákvað hann að draga sig út úr keppninni. Hann vildi ekki taka neina óþarfa áhættu þar sem mörg mikilvæg mót er framundan, eins og Players Championship á Sawgrass í lok mars og The Masters í apríl. Clarke ætlar að vera búinn að fá sig góðan af meiðslunum áður en kemur að Masters.

Hann segist reikna með að vera klár í slaginn fyrir Bay Hill PGA-mótið sem hefst 16. mars og sleppir því Honda PGA-mótinu um næstu helgi. “Ef allt gengur að óskum ætti ég að vera búinn að jafna mig fyrir Bay Hill mótið,” segir Clarke á heimasíðu sinni.