Suður-Afríkumaðurinn Rory Sabbatini tryggði sér sigur á Nissan PGA-mótinu sem leikið var á Riviera golfvellinum í Kaliforníu. Þetta er þriðji sigur Sabbatini á mótaröðinni og sá fyrsti í þrjú ár. Hann lék hringina fjóra á 271 höggi, 13 undir pari, og sýndi stáltaugar og stillingu á lokaholunum eftir að hafa tapað niður fjögurra högga forskoti sem hann hafði í upphafi dags.

,,Þetta er örugglega einn erfiðasti golfhringur sem ég hef spilað um ævina. Það virtist ekkert ganga upp,” sagði Sabbatini sem fékk ,,skolla” á 15. holu og deildi þá toppsætinu með þremur öðrum. Svo virtist sem Sabbatini væri að kikna undan spennunni, en Suður-Afríkumaðurinn sem þekktur er fyrir flest annað en róllyndi, náði að snúa stöðunni sér í hag. Hann fékk fugl á þeirri 16. sem er par-3,. með því að setja niður tveggja metra pútt og það reyndist mikilvægt. Hann fékk par á síðustu tvær holurnar og lék lokahringinn á 71 höggi. Lengi vel var lokadagurinn einvígi Sabbatini og hins gamalreynda Fred Couples. Sá síðarnefndi endaði hins vegar í 4. sæti eftir þrjá skolla á síðustu fjórum holunum. Sigurvegari mótsins í fyrra, Adam Scott frá Ástralíu, skaust upp í annað sætið með besta hring dagsins, 64 höggum.

Couples í uppáhaldi
Couples, sem á hús í Santa Barbara í nágrenni Riviera-vallarins, hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá áhorfendum. Það fór ekki á milli mála og hvor keppandanna í lokaráshópnum var í uppáhaldi og Sabbatini fannst stundum stuðningsmenn Couples fara yfir strikið í hvatningarópum. ,,Sumir gengu of langt og það voru ýmis orð látin falla í minn garð. Það leikur enginn vafi á að Freddie er frábær spilari og ég hefði aldrei haft neitt á móti því að menn hvetji hann, en mér finnst ekki rétt að óska þess að einhverjum öðrum gangi illa,” sagði Sabbatini.

Suður-Afríkumaðurinn sagði að ummæli áhorfenda og viðbrögð við höggum hefðu orðið til þess að hann hafi íhugað að fara hinum megin við kaðlana, til að ræða málin. Áhorfendur fögnuðu til að mynda þegar högg hans hafnaði í glompu á 12. holunni og þegar frábært högg með 2 járni á þeirri 13. rúllaði af flötinni.

Óhætt er að segja að árið byrji vel hjá Sabbatini. Þessi 29 ára kylfingur hefur þegar unnið sér inn rúmlega tvær milljónir bandaríkjadala, sem er svipuð upphæð og hann vann sér inn á öllu síðasta ári.Hann er nú efstur á peningalista PGA-mótaraðarinnar.