Það var sannkallaður fuglasöngur á fyrsta keppnisdegi á Dubai Desert mótinu þar sem 70 af 120 keppendum léku á betra skori en pari. Tiger Woods lék hringinn í dag á 67 höggum, eða 5 höggum undir pari og er í fimmta sæti ásamt nokkrum öðrum. Retief Goosen deilir efsta sætinu með Ástralanum Richard Green og Englendingnum Jamie Donaldson. Þeir léku allir á 64 höggum og án þess að fá skolla.

Tiger byrjaði hringinn frábærlega og var á 4 höggum undir pari eftir fjórar holur, en náði ekki að fylgja þessari góðu byrjun alveg eftir og fékk m.a. tvöfaldan skolla á 10. holu. Hann náði síðan tveimur fuglum í viðbót og lauk leik á 67 höggum. „Ég átti auðvitað að gera betur á 10. holu enda átti ég ágæta möguleika á að fá fugl þar. Það var eins og einhver væri að færa holuna því ég púttaði alltaf hægra megin við hana,“sagði Tiger og gerði bara grín að þessu.

Svíinn Henrik Stenson, sem var útnefndur kylfingur janúarmánaðar, lék á 67 höggum eins og Tiger. Ernie Els, sem vann þetta mót í fyrra, var á 68 höggum og Daninn Thomas Björn á 69 höggum.