Golfið er flókin íþrótt og ekki sjálfgefið að menn spili vel þó svo að þeir hafi unnið Opna breska meistaramótið. Þetta fékk Bandaríkjamaðurinn Todd Hamilton að reyna á Bob Hope PGA-mótinu sem nú stendur yfir í Kaliforníu. Hann lék annan hringinn í gær á 83 höggum eða 11 höggum yfir pari. Í kvöld bætti hann sig um 17 högg frá því í gær og lék á 66 höggum, eða 6 höggum undir pari.

Hann fékk ekki einn fugl á hringum í gær, en í dag voru þeir sex og síðan setti hann niður örn með ævintýralegu höggi á 9. holu, sem er par-4. Þá notaði hann aðeins 22 pútt á hringnum í kvöld á móti 31 pútti í gær.

Hamilton, sem vann Opna berska Meistaramótið 2004, hefur leikið þrjá fyrstu hringina á Bob Hope mótinu á samtals 4 höggum yfir pari og er í 114. sæti þegar þetta er skrifað og á enga möguleika á að komast í gegnum niðurskurðinn. Hann verður 41 árs í október og hóf að leika á PGA-mótaröðinni 1987. Hann hefur tvisvar sigrað á PGA-móti á ferlinum.