Tiger Woods hefur verið útnefndur besti kylfingur ársins í karlaflokki af Samtökum golffréttamanna í Bandaríkjunum, GWAA. Annika Sörenstam var útnefnd sem besta golfkona ársins og Dana Quigley sem besti kylfingurinn á bandarísku öldungamótaröðinni. Þau fá verðlaunin afhent í kvöldverðarboði á vegum GWAA sem haldið verður 5. apríl.

Tiger Woods hefur sjö sinnum holtið þessa nafnbót á síðustu níu árum. Enginn kylfingur hefur unnið þessi verðlaun eins oft, en næstur honum kemur Tom Watson, sem fékk þau sex sinnum. Vijay Singh hlaut þessa útnefningu í fyrra.

Sorenstam hefur hlotið GWAA-verðlaunin fimm ár í röð og samtals sjö sinnum á síðustu 11 árum. Þetta er í fyrsta sinn sem Quigley fær þennan heiður.

Bæði Tiger Woods og Sörenstam fengu um 95 prósent atkvæða í kjörinu. Quigley var með um 40 prósent atkvæða á bak við sig. Hale Irwin var í öðru sæti með 34 prósent atkvæða og Tom Watson í þriðja sæti með 26 prósent.

Tiger vann sex mót á árinu og þar á meðal tvö risamót; Masters og Opna breska. Þá vann hann Vardon-styttuna í sjötta sinn, en hún er veitt þeim kylfingi sem er með lægsta meðalskor á hring (68,66 högg). Þá varð hann efstur á peningalista PGA-mótaraðarinnar og var útnefndur kylfingur ársins á PGA-mótaröðinni.

Sorenstam vann 10 mót á tímabilinu, þar af tvö risamót; Kraft Nabisco og McDonald's LPGA Championship. Hún var efst á peningalista LPGA-mótaraðarinnar og vann Vare-styttuna, sem er veitt fyrir lægsta meðalskorið á árinu (69,33 högg).

Quigley vann tvö mót á Öldungamótaröðinni, Champions Tour, í ár og varð efstur á peningalistanum í fyrsta sinn. Hann varð fimm sinnum í öðru sæti.