Bandaríkjamaðurinn Kevin Stadler sigraði á Abierto Visa mótinu sem fram fór á Jockey-vellinum í Buenos Aries í Argentínu, en mótið var liður í Áskorendamótaröð Evrópu. Hann lék samtals á 6 höggum undir pari og var tveimur höggum á undan heimamanninum, Angel Cabrera.

Stadler átti þrjú högg á Cabrera fyrir lokahringinn. Cabrera var búinn að jafna leikinn eftir sex holur þar sem hann fékk fugl á 1., 5. og 6. holu. Þeir voru jafnir þar til kom að 10. holu, en þar fékk Cabrera tvöfaldan skolla og Stadler nýtti sér það og náði fljótlega tveggja högga forystu og hélt því forskoti til loka.

Skotinn Andrew McArthur og Rey Herman frá Argentínu deildu þriðja sæti, fjórum höggum á efir Cabrera.