Ástralinn Nick O'Hern byrjaði vel á ástralska Mastersmótinu, fékk tvo erni og fjóra fugla og lék á 64 höggum, eða 8 höggum undir pari. Robert Allenby, Adam Bland, Steven Conran og John Senden eru jafnir í öðru sæti, léku á 67 höggum. Peter O'Malley og Ný-Sjálendingurinn Brad Iles léku á 68 höggum og deila sjötta sæti.

Meistarinn frá í fyrra, Richard Green, lék á 73 höggum eða einu höggi yfir pari og Adam Scott átti slakan dag, lék á 76 höggum – fékk fimm skolla og einn þrefaldan skolla og 5. holu sem er par-3.

O'Hern, sem hóf leik á 10. teig, fékk örn á 14. braut sem er 609 metra lögn par-5 og á 14. braut, sem er 536 metrar. Þá fékk hann fugl á 3., 6., 12. og 17. holu. „Ég er auðvitað mjög ánægður með hringinn. Ég ákvað að sækja og slá beint á pinna og það var allt að ganga upp hjá mér,“ sagði hinn 34 ára gamli O’Hern, sem hefur leikið mikið á evrópsku mótaröðinni.

Allenby, sem vann Opna ástralska fyrir tveimur vikum og ástralska PGA-mótið fyrir viku síðan, gæti orðið fyrstur til að sigra í þessum þremur mótum á sama árinu. „Ég var mjög ánægður með skorið, fimm undir pari. Ég held ég hafi sýnt það, að ég er enn með góða sveiflu,“ sagði Allenby.