Bandaríkjamaðurinn Michael Allen jók forskot sitt á úrtökumótinu fyrir bandarísku PGA-mótaröðina upp í sex högg eftir annan hringinn í gær sem hann lék á 68 höggum. Hann hefur leikið fyrstu tvo hringina á samtals 12 höggum undir pari. Norðmaðurinn Henrik Björnstadt gæti orðið fyrsti Norðmaðurinn til að öðlast keppnisrétt á PGA-mótaröðinni, en hann er öðru sæti ásamt fjórum öðrum kylfingum.

„Það er gaman að hafa náð svo góðum árangri á fyrstu tveimur hringjunum, en það eru fjórir hringir eftir og þetta er því rétt að byrja. Ef ég næði að auka forskotið enn meira á næstu tveimur hringjum þá væri ég í góðum málum fyrir síðustu tvo hringina,“ sagði Allen, sem er 46 ára og lék á Crooked Cat vellinum í gær.

Allen þekkir vel til á úrtökumótunum því hann er að keppa þar í tólfta sinn og sjö sinnum náð að komast í gegn. Hann var í 130. sæti á PGA-peningalistanum á nýliðnu keppnistímabili og aðeins 125 efstu halda keppnisrétti sínum og því þurfti hann að fara í úrtökumótið.

Þjóðverjinn Alex Cejka og Scott Hend, sem var með lengstu teighöggin á PGA-mótaröðinni í ár, eru meðal efstu manna, í 7.-13. sæti á samtals 5 höggum undir pari.

125 keppendur taka þátt í úrtökumótinu að þessu sinni og fá 30 efstu kylfingarnir keppnisrétt á PGA-mótaröðinni. Mótinu lýkur á mánudag.