Fred Funk þurfti að fara í bleikt pils í Merrill Lynch skinnaleiknum í Kalifórníu í gær, en það var refsing hans fyrir að slá ekki lengra en Annika Sörenstam í teighögginu á þriðju holu. Funk stóð þó uppi sem sigurvegari eftir fyrri níu holurnar í gær með samtals sex skinn og 225 þúsund dollara. Þau leika síðan síðari níu holurnar í dag.

Merrill Lynch skinnaleikurinn er árlegt mót og sérstaklega styrkt af bandaríska fjárfestingarbankanum Merrill Lynch og fer það fram á Trilogy-vellinum í La Quinta í Kaliforníu. Mótið er boðsmót og að þessu sinni mættu; Tiger Woods, Fred Couples, Fred Funk og Annika Sörenstam. Funk er að taka þátt í þessu móti í fyrsta sinn og undanfarna daga hefur Tiger Woods verið að stríða honum með því að ef Sörenstam myndi slá lengra en hann.

Funk, sem er frekar höggstuttur, stal senunni á 9 holu hringnum í gær. Hann vann lokaholuna með því að setja niður 25 feta pútt fyrir erni. Hann fékk sex skinn á hringnum (vann sex holur) og Tiger Woods tók hin þrjú skinnin. Það ræðst síðan í dag hver fer heim með flest skinnin. 20 prósent af verðlaunafénu rennur til góðgerðarmála.

Funk var með aðeins lengri teighögg en Sörenstam á fyrstu tveimur brautunum, en á þriðju braut, sem er par-5, sló Sörenstam 5 metrum lengra en Funk. Á næsta teig á eftir þurfti Funk að fara í pilsið góða og lék í því nætu holu og vakti það mikla kátínu viðstaddra. “Þetta var hans hugmynd og aðstoðarmaður minn var farinn að efast eftir tvær fyrstu holurnar, að Funk þyrfti að fara í pilsið,” sagði Sörenstam.


Í fyrra vann Couples flest skinn, eða fimm og fékk fyrir það 640 þúsund Bandaríkjadali. Tiger varð þá í öðru sæti með 310 þúsund dali og Annika vann sér inn 225 þúsund dali í þriðja sæti. Ástralinn Adam Scott varð þá fjórði, en Funk tók nú sæti hans.

Á fyrstu sex holunum í keppninni eru verðlaunin 25 þúsund dalir á holu. Á 7.-12. holu hækka verðlaunin í 50 þúsund á holu og á 13. -17. holu verður leikið um 70 þúsund dali á holu. Á 18. og síðustu holunni eru síðan 200 þúsund dalir undir. Fyrirkomulagið er þannig að sá keppandi sem er með besta skor á holu vinnur skinn, ef fleiri en einn eru á besta skori flyst upphæðin yfir á næstu holu á eftir og þannig koll af kolli.